Mikið var um dýrðir í Katowice í dag og sáu tvær handboltagoðsagnir, Pólverjinn Slawomir Szmal og Svíinn Magnus Wislander, um að draga liðin úr pottinum. Ísland var í efsta styrkleikaflokki vegna góðs árangurs á Evrópumeistaramótinu í janúar. Ísland var ekki heppið með riðil en það mætir Portúgölum, Ungverjum og Suður-Kóreu. Ísland leikur því gegn Portúgal þriðja stórmótið í röð. Fyrsti leikur liðsins verður einmitt gegn Portúgölum í Kristianstad 12. janúar.
Þrjú lið fara upp úr riðlinum en leikið er í átta fjögurra liða riðlum. Þau lið sem komast upp fara í milliriðil þar sem tvö lið fara áfram í 8-liða úrslit. Ísland leikur við liðin úr C-riðli í milliriðli fari liðið áfram. Í C-riðli leika Svíþjóð, Brasilía, liðið sem lendir í öðru sæti á Afríkumeistaramótinu og Úrúgvæ. Milliriðillinn verður leikinn í Gautaborg.
Riðlarnir á mótinu:
A-riðill: Spánn, Svartfjallaland, Chile og Íran.
B-riðill: Frakkland, Pólland, Sádi-Arabía og Slóvenía.
C-riðill: Svíþjóð, Brasilía, Afríka 2 og Úrúgvæ.
D-riðill: Ísland, Portúgal, Ungverjaland og Suður Kórea.
E-riðill: Þýskaland, Katar, Serbía og Afríka 5.
F-riðill: Noregur, Norður Makedónía, Argentína og Holland.
G-riðill: Afríka 1, Króatía, Afríka 3 og Bandaríkin.
H-riðill: Danmörk, Belgía, Barein og Afríka 4.
RÚV sýnir beint frá HM í Póllandi og Svíþjóð í janúar.