Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Einkenni apabólu í Bretlandi ólík faröldrum í Afríku

FILE - This 2003 electron microscope image made available by the Centers for Disease Control and Prevention shows mature, oval-shaped monkeypox virions, left, and spherical immature virions, right, obtained from a sample of human skin associated with the 2003 prairie dog outbreak. The Biden administration has started shipping testing kits for monkeypox to commercial laboratories, in a bid to speed diagnostic tests for suspected infections for the virus that has already infected at least 142 people in the U.S.(Cynthia S. Goldsmith, Russell Regner/CDC via AP, file)
 Mynd: AP
Þeir Bretar sem smitast hafa af apabólu sýna einkenni ólík þeim sem fylgt hafa sjúkdómnum hingað til. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar sem gerðar voru heyrinkunnar í gær, föstudag.

Þar til fyrir örfáum mánuðum var apabóla helst bundin við landsvæði í Vestur- og Mið-Afríku. Veiran sem veldur sjúkdómnum barst þá yfirleitt í menn eftir snertingu við nagdýr.

Rúmlega þrjú þúsund apabólutilfelli hafa greinst í Evrópu og Bandaríkjunum frá því í maí.

Bretland var meðal þeirra landa þar sem sjúkdómurinn skaut sér fyrst niður en þarlendir vísindamenn birtu niðurstöður rannsóknar sinnar í tímaritinu Lancet.

Vísindamennirnir greindu einkenni sjúkdómsins hjá 54 karlmönnum sem stundað höfðu kynlíf með öðrum karlmönnum. Um sextíu prósent smitaðra á Bretlandi tilheyrðu þeim hópi undir lok maí. 

Aðeins tveir þeirra vissu að þeir höfðu átt samskipti við einstaklinga smitaða af apabólu.

Algengast er að bólur og sár komi fram á útlimum, hálsi og andliti en þau voru helst á kynfærasvæði mannanna sem bresku vísindamennirnir rannsökuðu. Þeir telja að það bendi til þess að sjúkdómurinn smitist við kynmök.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áréttar hins vegar að apabóluveiran dreifist fyrst og fremst við hvers kyns nána snertingu. Ekki megi skilgreina apabólu sem kynsjúkdóm.

Mun lægra hlutfall bresku sjúklinganna en þeirra í Afríku fékk mikinn hita, yfirleitt voru einkenni væg og vörðu skamman tíma. Fimm þurftu að leggjast inn á sjúkrahús. 

Bresk heilbrigðisyfirvöld skilgreina apabólu sem bráðasjúkdóm með miklum hita. Aðalhöfundur greinarinnar Nicolo Girometti, alnæmis-, kyn- og þvagfærasjúkdómasérfræðingur, segir brýnt að endurskoða skilgreininguna í ljósi niðurstaðnanna.

Einkenni sjúkdómsins hjá minnst einum af hverjum sex úr rannsóknarþýðinu féll ekki að núverandi skilgreiningu. Paul Hunter, smitsjúkdómasérfræðingur við háskólann í Austur-Anglíu álítur hins vegar óþarft að breyta skilgreiningunni, enda sé hún fremur breið.