Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stórauknar varnir í Evrópu á teikniborðinu

Mynd: BHÓ / BHÓ
Sögulegum leiðtogafundi NATO ríkjanna í Madríd, lauk í gær. Brynja Huld Óskarsdóttir öryggis- og varnarmálasérfræðingur, segir að helstu tíðindi fundarins séu að ákvörðun hafi verið tekin um stórauknar varnir í Evrópu, sérstaklega austanmegin í álfunni.

Brynja Huld sem var gestur morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun, segir að Bandaríkin hafi ákveðið að auka viðveru sína og herstyrk í þeim ríkjum sem eiga landamæri að Úkraínu. Evrópuríki hafi einnig lýst því yfir að þau ætli að auka viðveru sína í Austur-Evrópu og varnargetu.

„Það sem hefur gerst frá innrásinni í Úkraínu, er að Evrópa og NATO er mun samþjappaðra. En svo líka, því lengra sem líður frá innrásinni, þá sér maður að það eru brotalínur varðandi orkumálin og eitt og annað sem er að tínast til og sem mun halda áfram að valda núningi. Áhugavert verður að sjá hvernig veturinn verður, þegar orkuskömmtun verður kannski í stærstu löndum Evrópu.“ 

Rússland helsta öryggisógn NATO

Brynja segir að í stefnuskjali leiðtogafundarins komi þó ekki mikið nýtt fram, sérstaklega er tengist Íslandi. Lítið sé fjallað um norðurslóðir í skjalinu og staðan í Úkraínu hafi yfirskyggt önnur mál.

Rússlandi sé lýst sem helstu öryggisógn bandalagsins og fjallað um stöðu Kína sem áskorun við hagsmuni og gildi aðildarríkjanna hvað varðar lýðræði og mannréttindi, þetta sé nýtt. Í fyrsta sinn séu loftslagsbreytingar auk þess skilgreindar sem afgerandi ógn og eitthvað sem hafi veruleg áhrif á öryggi bandalagsins, frið og stöðugleika. 

Hárfín lína í framsetningu stefnumála

Brynja segir að framsetning skipti miklu máli þegar kemur að því að taka ákvarðanir og kynna þær opinberlega, enda sé ástandið viðkvæmt.

„Þetta er náttúrulega hárfín lína. Það sem skiptir rosalega miklu máli er tungumálið. Hvernig hlutirnir eru orðaðir og settir fram. Jens Stoltenberg sagði á blaðamannafundi með norrænum blaðamönnum, að ástæðan fyrir auknum hernaðarmætti eða viljinn til að auka hernaðarmátt, sé ekki hugsaður til þess að NATO ætli sér að ögra Rússlandi eða ætli í hernaðaríhlutun, heldur sé þetta gert til þess að auka varnir,“ segir Brynja Huld.

Hún bætir því við að Pútín hafi lýst því yfir í kjölfar þess að Finnlandi og Svíþjóð hafi nú verið boðin aðild að bandalaginu, að hann yrði að bregðast við uppbyggingunni til þess að jafnvægi kæmist á í hernaðarmætti á svæðinu. 

Í spilaranum hér að ofan má hlusta á viðtal við Brynju Huld í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.