Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bjarni og Kjartan deila um ofgreiðslu launa

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómarafélag Íslands hefur mótmælt harðlega ákvörðun um að skerða laun dómara vegna mistaka í útreikningi þeirra. Formaður félagsins segir að aðgerðirnar feli í sér atlögu framkvæmdarvaldsins að dómsvaldinu. Dómsmálaráðherra segir að verið sé að leiðrétta launin svo þau verði lögum samkvæm.

Í morgun tilkynnti Fjársýsla ríkisins að 260 þjóðkjörnir fulltrúar, ráðherrar og tilteknir embættismenn, þeirra á meðal dómarar, hefðufengið ofgreidd laun frá því árið 2019. Ofgreiðslan verður dregin af launum einstaklinganna eða kröfur stofnaðar í jöfnum hlutum í tólf mánuði. 

„Við höfum ekki fengið neinar útskýringar á hvaða grundvelli þetta er gert,“ segir Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómarafélags Íslands.

„Hvorki fjármálaráðuneytið né Fjársýslan hafa útskýrt hvað er rangt við útreikningana. Það hefur til dæmis ekki komið fram hvort Hagstofan hafi reiknað út og birt breytingu á meðaltali reglulegra launa eins og ber að gera samkvæmt dómstólalögum. Ef Hagstofan hefur ekki gert það þá hefur ekki verið farið að lögum og þau mistök eru á ábyrgð ráðherra eins og allar stjórnarframkvæmdir samkvæmt stjórnarskránni,“ segir Kjartan.

Hann telur að vinnulag ráðuneytisins og fjársýslunnar gangi ekki upp í réttarríki. „Staðan er sú að fjöldi manna er hér á ári hverju að reka mál gegn íslenska ríkinu. Ef þetta fólk á að eiga það á hættu - þegar það á allt sitt undir að dómari ákveði sitt mál með sjálfstæðum og óviðhollum hætti - að þessir sömu dómarar geti sætt einhliða og óútskýrðum skerðingum á launakjörum frá íslenska ríkinu, þá erum við að bera réttindi þess samkvæmt stjórnarskrá og alþjóðlega mannréttindasáttmálanum á borð,“ segir Kjartan.

Hann telur að rétturinn sé þeirra megin í málinu, Dómarafélagið muni gera allt sem það getur til að vernda sjálfstæði dómsvaldsins og tryggja aðgang að sjálfstæðum og óvilhollum dómurum.

Fráleitt að ræða um geðþáttaákvörðun

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að málið sé ósköp einfalt.

„Það snýst um að útgreidd laun voru hærri en þau laun sem greiða átti lögum samkvæmt. Það er óþolandi að þetta hafi gerst en við því verður að bregðast,“ skrifar Bjarni á Facebook-síðu sína.

„Laun dómara eins og annarra æðstu embættismanna eru ekki að lækka, eins og formaður Dómarafélagsins hefur sagt. Þau eru leiðrétt núna um mánaðamótin og hækka svo frá 1. júlí um 6,9% frá þeirri leiðréttingu. Frá þeim tíma verða launin nákvæmlega þau sem þau eiga að vera lögum samkvæmt. Að ræða um geðþóttaákvörðun fjármálaráðherra í þessu samhengi er fráleitt. Fjárhæðin er lögákveðin,“ skrifar ráðherrann.

Þá telur hann að málstaður þeirra sem mótmæla því að nú eigi að leiðrétta laun sé aumur.

„Að halda því fram, líkt og formaður Dómarafélagsins gerir, að þetta einfalda mál snúist um rétt borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum stenst augljóslega enga skoðun,“ skrifar Bjarni og heldur áfram:

„Það snýst miklu frekar um þetta: Fólkið í landinu ætti ekki að þurfa að hlusta á að það sé flókið fyrir efsta lag ríkisins, æðstu embættismennina, að skila því sem ofgreitt var úr opinberum sjóðum. Annað væri hrikalegt fordæmi og er ekkert minna en siðferðisbrestur.“

Mynd með færslu
peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV