Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Aukin þörf fyrir fjárhagsstuðning í Eyjafirði

Mynd með færslu
Jófríður Traustadóttir og Sigríður M. Jóhannsdóttir f.h. Mæðrastyrksnefndar og Guðmundur Guðmundsson f.h. Hjálparstarfs kirkjunnar Mynd: RÚV
Hjálparsamtök við Eyjafjörð hafa sameinast um að stofna velferðarsjóð sem á að bregðast við aukinni þörf fyrir fjárhagsaðstoð.

Hækkun á húsaleigu, matvörum og eldsneyti hefur áhrif

Þörf fyrir fjárhagsstuðning af hendi hjálparsamtaka í Eyjafirði hefur aukist mikið. Það sem af er ári hefur jafn miklu verið úthlutað og allt síðasta ár. Sigríður M. Jóhannsdóttir, formaður nýstofnaðs Velferðarsjóðs Eyjafjarðar ,segir að ýmislegt spili þar inn í. „Það er hækkun á húsaleigu og hækkun á öllum matvörum og bensíni og annað sem veldur því að fólk bara á örorkubótum nær ekki endum saman.“

Velferðarsjóðurinn samstarfsvettvangur fernra hjálparsamtaka

Velferðarsjóður Eyjafjarðar var stofnaður til að bregðast við þessari auknu þörf. Hann er formlegur samstarfsvettvangur Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins á Akureyri, Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og Rauða krossins við Eyjafjörð. Markmiðið er að sjóðurinn starfi allt árið og safni fjármunum til að veita fjölskyldum og einstaklingum sem á þurfa að halda styrki af ýmsum toga. „Styrkirnir hafa verið að fara í að borga skólagjöld og svoleiðis, íþróttastyrki og sálfræðiaðstoð, fermingarstyrki, sumardvalir. Það er ýmislegt sem við höfum verið að styrkja,“ segir Sigríður. Mikilvægt sé að bregðast við þessari auknu eftirspurn. „Við vonumst bara til að almenningur og fyrirtæki verði dugleg að styrkja okkur.“