Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Viðvera herliðs hér á landi ekki á dagskrá

epa10040219 Iceland's Prime Minister Katrin Jakobsdottir, talks to media upon her arrival to attend the first day of the NATO summit at IFEMA congress centre in Madrid, Spain, 29 June 2022. Some 40 world leaders are to attend the summit, running from 29 to 30 June, focused on the ongoing Russian invasion of Ukraine. Spain hosts the event to mark the 40th anniversary of its accession to NATO.  EPA-EFE/J.J. Guillen / POOL
 Mynd: EPA
Ekki hefur komið til tals innan þjóðaröryggisráðs að óska eftir því að erlendar hersveitir hafi fasta viðveru hér á landi. Þetta segja forsætis- og utanríkisráðherra. Þær eru báðar staddar á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem nú fer fram í Madrid á Spáni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðaði endurskoðun þjóðaröryggisstefnu í hátíðarræðu sinni 17. júní. Á sama tíma hefur öryggisumhverfið í Evrópu verið að taka stakkaskiptum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Innrásin er til dæmis ástæðan fyrir því að Finnar og Svíar sækja nú um aðild að NATO. Aðildarþjóðir NATO eru reglulega með loftrýmisgæslu yfir Íslandi og það kemur til greina að auka þá viðveru. Katrín Jakobsdóttir segir ekki standa til að bæta við fastri viðveru hermanna hér á landi.

„Við höfum ekki verið að ræða fasta viðveru herliðs í framhaldinu á Íslandi, það höfum við ekki verið að ræða,“ segir Katrín. Hún segir unnið að tvennu í þjóðaröryggismálum, annarsvegar endurskoðun þjóðaröryggisstefnu og hins vegar uppfærðu áhættumati fyrir Ísland. Síðast var samþykkt þjóðaröryggisstefna árið 2016. „Ég tel að hún hafi verið mjög framsýnt plagg á þeim tíma og hafi staðist ágætlega tímans tönn, en það eru ákveðin atriði sem þarf að skerpa á í henni,“ segir Katrín. Áhættumat fyrir Ísland segir hún snúa meira að því hvernig Íslendingar geti eflt sinn viðbúnað og ítrekar að ekki hafi verið til skoðunar að taka upp fasta viðveru herliðs á Íslandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra segir standa til að fara í frekari fjárfestingar á Keflavíkurflugvelli og að breytingarnar þar taki mið af öryggisáherslum NATO. „Það er að hluta til eitthvað sem hefur verið í deiglunni í töluvert langan tíma, og að öðru leyti tekur Keflavíkursvæðið auðvitað mið af þessum breytingum þrátt fyrir að allur helsti fókus sé á austurhluta bandalagsins og jafnvel frekar suðurhlutann en hjá okkur.“ 

Þórdís segir tekur í sama streng og segir engin áform um erlendar hersveitir hafi hér viðveru. „Það er ekkert til umræðu að fá aftur heim herafla með fasta viðveru. Af öllu því sem við gætum þurft að gera þá er ég ekki viss um að það sé mjög ofarlega á þeim lista, en svo bara verður að koma í ljós það sem kann að gerast, en það er ekki til umræðu, það er ekki á dagskrá.“

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV
astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir