Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Glúrið gáskapopp

Mynd með færslu
 Mynd: Gosi

Glúrið gáskapopp

30.06.2022 - 09:44

Höfundar

Útúrsnúningur er fyrsta breiðskífa Gosa sem er listamannsnafn Andra Péturs Þrastarsonar (og stundum fleiri). Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Verkefni þetta var stofnað fyrir níu árum síðan, á rætur í Hollandi en er nú keyrt frá Ísafirði. Í fréttatilkynningu segir á glettinn hátt að verkefnið sé a.m.k. „aldrei færri en Andri Pétur en hann sér um rafgítar,söng, hljóðgervla og flest annað sem honum dettur í hug að gæti grúvað.“ Grunnstoð hans er svo Marta Sif, söngkona og listrænn stjórnandi. Platan var tekin upp í Spilastokk, stúdíói Gosa. Ég komst að því með léttu gúggli að Andri er sonur Þrastars nokkurs Jóhannessonar sem fór fimum fingrum um gítarinn í hinni stórkostlegu Keflavíkursveit Texas Jesús hér í gamla daga (voðalega er maður orðinn roskinn). Ég get staðfest að nef föðurins fyrir hlutum sem eru ögn á skjön, tónrænt séð, hafa skilað sér niður í soninn.

Útúrsnúningur er sprúðlandi skemmtileg plata. Gáskafull, stuðvæn og Andri er óhæddur við að láta vaða í eitt og annað. Lögin þrettán ganga kannski ekki öll fullkomlega upp en það er ákveðinn ferskleiki, jafnvel fífldirfska, sem heldur manni á bríkinni út í gegn. Það má alveg kalla þetta skrítipopp (Beck, Talking Heads jafnvel) en þetta grúvar líka æði vel út í gegn.

Fyrsta lagið, „Í myrkri“ er með víruðum, síðpönksskotnum gítar, en undir er naumhyggjulegt grúv. Söngurinn er dulítið Moses Hightower-legur og áhrif þeirrar eðlu sveitar áberandi á köflum. „Miðjarðarhafið“ er ásláttardrifið, smá Vampire Weekend jafnvel og svona Brooklyn-hipsterablær yfir. Ísfirðingarnir hafa alltaf verið svalir. „Yndisleg“ er í Moses-gír, sönglega a.m.k., og undirspil strípað og hvasst. Minnir mig einna helst á King of Limbs þeirra Radioheadmanna.

Já, þetta er tilraunakennt en líka skemmtilegt! „Ský“ er ekki ósvipað, tilraunakennt grúv, áheyrilegt en samt sýrt. Og svona rúllar platan meira og minna. Alltaf eitthvað áhugavert í hljóðrásunum og Andra tekst að smíða skaplegustu lög innan þessa hljóðheims. Ég get eiginlega ekki kvartað. Fannst eins og ég hefði orðið var við eitthvað andleysi í einhverju laginu en ég finn það ekki lengur! „Tilveran“ er með karabísku sniði (miklar taktpælingar einkenna plötuna) og „Halar“ er sæmilega einkennandi fyrir allt hérna. Gott grúv, töffarabragur og melódía en líka skringilegheit. Mugison, sonur Vestfjarða, kemur og upp í hugann (og sonur Reykjavíkur, Súðavíkur, Ísafjarðar og bætið við eftir smekk).

Stórgott alveg, sérstaklega ef miðað er við að þetta er hálfgildings heimabrugg. Alþjóðlegur hipsterismi vafinn inn í vestfirskt fjallalandslag. Það er ekkert víst að það klikki.