Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ummerki stríðsglæpa alltumlykjandi

Varaformaður Íslandsdeildar Evrópu­ráðs­þingsins segir vettvangsferð til Úkraínu hafa verið átakanlega. Ráðið fór meðal annars til Bucha og Irpin, þar sem hún segir ummerki stríðsglæpa alltumlykjandi.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er nýkomin til Póllands frá Úkraínu þar sem undirnefnd laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþings var í vettvangsferð til að kanna aðstæður og ásakanir um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni sem hafa verið settar fram gegn yfirvöldum í Rússlandi og rússneska hernum.

„Þetta var mjög átakanleg ferð. Mjög upplýsandi líka,“ segir Þórhildur Sunna. Við fórum til Irpin og Bucha og hittum þar íbúa og prest á svæðinu í Bucha sem sýndi okkar hvar fjöldagröf hafði verið grafin þar sem að Rússarnir skildu eftir lík almennra borgara á víð og dreif um borgina.

Hún segir ummerki stríðsglæpa hafa verið alltumlykjandi. 

„Rússneskir hermenn lögðu sig fram um að skjóta á bíla flóttamanna sem höfðu skrifað sérstaklega á bílana sína að það væru börn í bílnum. Það fannst okkur mikill hryllingur,“ segir Sunna.

Ráðið ferðaðist líka til Irpin þar sem um sjötíu prósent heimila hafa orðið fyrir skemmdum eða eyðilagst algjörlega. 

„Þar var sömuleiðis mikið um að skotið væri á óbreytta borgara sem voru að flýja og einmitt líka sérstaklega þá sem voru með börn í bílnum.“

Í Kyiv fundaði ráðið með yfirvöldum um meinta stríðsglæpi og hvernig yrði hægt að draga þá sem eru ábyrgir fyrir þeim til ábyrgðar. Sprengjum var varpað á borgina meðan á ferðalaginu stóð. 

„Þetta var vissulega ekki þægilegt og þá sér í lagi þegar að loftvarnaflauturnar fóru í gang og við vorum á efstu hæðinni í utanríkisráðuneytinu þarna en ég held að það sé ekkert í samanburði við daglega líf þess fólks sem býr í Kyiv,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

hafdishh's picture
Hafdís Helga Helgadóttir
peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV