Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sögulegur fundur NATO í Madríd

29.06.2022 - 20:53
Erlent · NATO
Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins ætla að auka útgjöld til varnarmála, og Bandaríkin bæta í herlið sitt í Evrópu. Þetta er meðal þess sem leiðtogar NATO samþykktu á fundi sínum í Madrid í dag.

Einnig samþykktu leiðtogarnir formlega að bjóða Svíþjóð og Finnlandi aðild að bandalaginu, eftir að Tyrkir létu af andstöðu sinni í gærkvöld.

Fundurinn í Madríd er um margt sögulegur. Leiðtogar NATO hafa samþykkt nýja tíu ára áætlun sem felur meðal annars í sér að líta á Rússland sem beina ógn við aðildarríkin. Þá ætla leiðtogarnir að auka enn útgjöld til hernaðarmála og lýsir bandalagið yfir fullum og óskoruðum stuðningi við Úkraínu. Einnig hefur verið ákveðið að bæta í viðbúnað og varnir í aðildarríkjum sem liggja nálægt Rússlandi, þannig ætla Bandaríkjamenn að fjölga í sínu herliði í Evrópu, senda herflugvélar og flotaskip austur um haf og setja upp fasta stjórnstöð herdeildar í Póllandi. 

NATO taki ekki beinan þátt í Úkraínu en stuðningur áfram vís

Þeggar kemur að stríðinu í Úkraínu er engan bilbug að finna á leiðtogum aðildarríkja NATO sem ætla að halda áfram að senda vopn og annan stuðning til stjórnvalda í Kænugarði. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, sagði að Úkraína gæti reitt sig á stuðning NATO eins lengi og þörf krefur. Engin breyting hefur þó orðið á þeirri afstöðu NATO að taka ekki beinan þátt í varnarbaráttu Úkraínumanna.

Bandaríkjaforseti liðkað fyrir samningum

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna sagði í morgun að fullur stuðningur væru við inngöngu Finna og Svía. „Ákvörðun landana um að láta af hlutleysishefðinni og ganga til lis við Bandalagið eflir okkur og styrkir öryggi okkar og styrkir NATO,“ sagði Biden. Fram hefur komið í fréttum að Biden hafi átt samtal við Erdogan, Tyrklandsforseta, um að ná samningum og láta af andstöðu sinni við inngöngu landanna. Einnig hefur verið sagt frá því að Bandaríkjamenn ætli nú að leyfa sölu á orystuþotum til Tyrklands sem er nokkuð sem Tyrkir hafa sóst eftir.

Blaðamannafundur leiðtoga Norðurlandanna

Leiðtogar Norðurlandanna komu fram á blaðamannafundi í Madríd í dag þar sem forseti Finnlands og forsætisráðherra Svíþjóðar þökkuðu stuðning hinna Norðurlandaþjóðanna. Þar var Katrín Jakobsdóttir. „Ég vil koma því að hér að á Íslandi ríkir almennur stuðningur, á Alþingi og hjá þjóðinni, við að Svíar og Finnar hafi sótt um aild að NATO,“ sagði Katrín á dönsku á blaðamannafundinum. 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV
astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir