
Pútín segir Finnum og Svíum frjálst að ganga í NATO
Á blaðamannafundi í Túrkmenistan í dag sagði Pútín að Rússar ættu ekki í neinum útistöðum við Svía eða Finna eins og við Úkraínumenn.
„Ef þau vilja geta þau verið með, þau ráða því. Þau geta gengið í hvaða félagsskap sem þau vilja,“ sagði Pútín.
Rússar vöruðu áður við aðild að hernaðarbandalaginu
Í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu kröfðust rússnesk stjórnvöld þess að Atlantshafsbandalagið samþykkti engar nýjar aðildarumsóknir. Það tók til bæði til Úkraínu, Finnlands og Svíþjóðar.
Pútín greindi svo frá því í síðasta mánuði að hann hefði ekkert við aðildina að athuga. Utanríkis- og varnarmálaráðherrar Rússlands, nafnarnir Sergei Lavrov og Sergei Shoigu, hafa til þessa ekki farið í grafgötur með andstöðu Kremlarstjórnarinnar við aðildarumsókn Finna og Svía að Atlantshafsbandalaginu og varað við alvarlegum afleiðingum slíkrar umsóknar, án þess þó að tilgreina nánar í hverju þær myndu felast.