Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eyrún ráðin sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar

Mynd með færslu
 Mynd: Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar - Aðsent
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir hefur verið ráðin sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar til næstu fjögurra ára. Eyrún er viðskiptafræðingur að mennt, með meistaragráðu í verkefnastjórnun. Hún var sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps á árunum 2006-2013 og hefur setið sem varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún er einn þriggja eigenda Ráðríks ráðgjafastofu, sem sérhæfir sig í sveitarstjórnarmálum.

Haft er eftir Eyrúnu í tilkynningu frá bænum að Eyrún sé auðmjúk og þakklát fyrir það traust sem henni er sýnt með ráðningunni. „Dalvíkurbyggð er spennandi staður, vel staðsettur um miðjan Eyjafjörð og hefur mikla möguleika til að vaxa og dafna. [...] Ég hlakka mikið til að takast á við þau verkefni sem starfinu fylgja með starfsfólki Dalvíkurbyggðar, sveitarstjórn og íbúum,“ segir Eyrún.

Sjálfstæðisflokkur og K-listi Dalvíkurbyggðar mynduðu meirihluta á Dalvík eftir sveitarstjórnarkosningar í vor. Sjálfstæðisflokkur fékk tvo menn kjörna í sveitarstjórn, en K-listi þrjá. Í minnihluta er Framsóknarflokkur, sem fékk tvo menn kjörna. Ákveðið var að auglýsa starf bæjarstjóra.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV