Bakslagið í baráttu hinsegin fólks er komið

Mynd: Saga Sif / Aðsend

Bakslagið í baráttu hinsegin fólks er komið

29.06.2022 - 14:56

Höfundar

„Nú þarf að hlusta á okkur hinsegin fólkið þegar við segjum að bakslagið er komið,“ segir Hjalti Vigfússon, einn skipuleggjanda samtöðu- og kröfufundar sem haldinn verður á morgun í kjölfar hryðjuverksins í Osló í garð hinsegin fólks.

Blásið verður til samstöðu- og kröfufundar á Austurvelli á morgun í kjölfar hryðjuverksins í Osló þar sem vopnaður maður hóf skothríð á skemmtistað sem er vinsæll hjá hinsegin fólki í miðborginni. Árásin hefur vakið óhug meðal hinsegin fólks á Norðurlöndunum sem áður taldi sig búa við frelsi hinseginleikans í öruggustu löndum heims. Skipuleggjendur fundarins, þau Hjalti Vigfússon og Ingileif Friðriksdóttir, segja frá fundinum og kröfu þeirra til stjórnvalda.  

Vilja sýna stuðning í verki 

Hugmyndin kviknaði út frá vilja þeirra til að gera eitthvað í kjölfar árásarinnar. Ingileif telur að allt hinsegin samfélagið hafi verið dofið sorgmætt undanfarna daga og ekki vitað hvernig það ætti að snúa sér. „Svo einhvern veginn kviknar neisti og það kemur þessi hugmynd að gera bara eitthvað, reyna að leggja okkar af mörkum eins og við getum,“ segir Ingileif í samtali við Snærós Sindradóttur og Ingvar Þór Björnsson í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

„Þannig viljum við sameina hinsegin samfélagið hérna heima og sýna stuðning í verki og minnast auðvitað þeirra sem féllu í þessari hörmulegu árás,“ segir hún. „Við viljum senda styrk til þeirra sem særðust og auðvitað bara alla okkar hlýju til hinseginfjölskyldu okkar í Noregi og auðvitað bara allra þar í landi.“ 

Samfélagið þarf að vera á varðbergi 

Fundurinn er ekki eingöngu haldinn til að sýna samstöðu. Hjalti og Ingileif segja að ýmis merki séu um að bakslag hafi orðið í réttindabaráttunni. Þau vilja líka bera upp kröfur á hendur stjórnvöldum. „Við sjáum að það eru teikn á lofti um aukna hatursorðræðu, aukið ofbeldi. Ekki bara úti heldur hérna heima líka,“ segir Ingileif. „Við viljum krefjast ákveðinna aðgerða, við viljum að hinsegin fræðsla verði aukin á öllum stigum samfélagsins.“ 

„Í kjölfar þessarar árásar höfum við séð alls staðar í samfélaginu, meðal annars hjá pólitíkusum hér á Íslandi að við þurfum að vera vakandi fyrir bakslaginu hér heima,“ segir Hjalti og tekur sem dæmi fréttirnar frá Noregi og Bandaríkjunum síðustu daga. „Nú þarf að hlusta á okkur hinsegin fólkið þegar við segjum að bakslagið er komið.“  

Samfélagið verði að hafa varann á. „Og ef þið ætlið að vera á varðbergi í alvörunni þá þarf að grípa til aðgerða því við sjáum núna hvert vindurinn blæs. Þá þurfum við bara að vera sterk og berjast á móti.“ Hann segir mikilvægt að krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda því ábyrgðin sé þeirra núna. 

Fræðslan er tilviljanakennd

Sem dæmi um nauðsynlegar breytingar nefnir Ingileif að það verði að vera skýrt hvernig hinseginfræðslu er háttað í skólakerfinu. Það sé tilviljankennt hvernig skólarnir hagi fræðslunni og aðeins örfá sveitarfélög hafi samið um hans við Samtökin ‘78. „Ég veit að á mörgum stöðum hefur það bara verið í höndunum á kannski einhverjum kennurum að fá til sín fræðslu, ákveða hver kemur og allt þetta,“ segir Ingileif.  

„Þannig að þetta getur orðið svolítið slitrótt og fer bara eftir hver er að kenna hverju sinni,“ heldur hún áfram. „Auðvitað vitum við að fólk er allt af vilja gert, yfirleitt, og vill auðvitað fá þessa fræðslu. En stundum er fólk ekki alveg að kveikja á perunni að sækjast eftir henni sjálft.“  

Af þeim ástæðunum vilji hópurinn að þetta sé alveg skýrt, að öll sveitarfélög taki upp samstarf við Samtökin ‘78 og kennarar og nemendur á öllum skólastigum fái fræðslu á hverri einustu önn. „Vegna þess að því miður erum við að sjá að bakslagið er að eiga sér stað hjá ungu fólki.“ 

Héldu að krakkarnir væru komnir langt fram úr sér  

Ingileif stofnaði fræðsluvettvanginn Hinseginleikann ásamt eiginkonu sinni, Maríu Rut Kristinsdóttur, og hafa þær sinnt fræðslu undanfarin sex ár. „Þetta er eitthvað sem ég kannski bjóst ekki við að gæti verið að gerast,“ segir Ingileif um bakslagið en þær hafi tekið eftir breytingu í viðhorfi ungmenna undanfarið ár. „Við einhvern veginn héldum að við værum komin lengra. Fyrir tveimur árum vorum við að segja: Jæja, nú þurfum við ekkert lengur að vera að fræða. Þau eru komin langt fram úr okkur þessir krakkar,“ segir hún.  

„Svo komum við núna og erum að halda fyrirlestra og erum allt í einu núna að verða rosalega varar við transfóbíu,“ segir Ingileif. „Það er mikil hatursorðræða í garð kynsegin fólks og það er mikil undiralda að kvikna í gegnum samfélagsmiðla eins og Tik Tok, þar sem krakkar sjá einhvern algóriþma sem er að sýna einhverja hatursorðræðu.“ Slík viðhorf séu fljót að síast inn hjá krökkum, sér í lagi þeim sem fá litla fræðslu.  

„Þetta er dauðans alvara“ 

„Þarna er komin af stað einhvers konar bylgja þar sem við verðum að setja fótinn niður,“ segir Ingileif og tekur sem dæmi ungmennin sem rætt var við í Kastljósi fyrir nokkrum vikum. Þau sögðu frá sinni reynslu og lýstu því hvernig gelt er á þau úti á götu vegna þess að þau eru hinsegin. „Við erum að heyra sögur af því að þetta hafi þau áhrif á þessi ungmenni að sum þeirra sjá bara ekki út úr svartnættinu sem þau upplifa,“ segir Ingileif.  

„Þannig að þetta er dauðans alvara,“ segir hún. Stundum þyki fólki sem heyrir ekki til hinseginhópsins eins og þau séu dramatísk og ýki hlutina. „En við erum ekki að gera það, þetta er að raungerast.“ Það sé ekki einungis eldri kynslóðin sem sé ekki alveg með á nótunum heldur virðist margir krakkar ekki vera komnir á þann stað sem þau myndu kjósa.  

„Þannig að þetta er það sem okkur þykir mikilvægast af öllu,“ segir Ingileif. „Því auðvitað er rót fordóma yfirleitt fáfræði og við viljum uppræta það með eins mikilli fræðslu og hægt er.“ 

Erum að sjá fyrrum forsætisráðherra dreifa hatursáróðri 

Hjalti tekur fram að ofbeldi eins og átti sér stað í Noregi um helgina eigi sér skýrar rætur í hatursorðræðu. „Og við erum að sjá þessa hatursorðræðu mjög víða núna, sérstaklega með málefni trans fólks,“ segir hann.  

„Við sjáum að Jordan Peterson fyllir Háskólabíó,“ segir Hjalti um sálfræðinginn umdeilda. „Það er maður sem gjörsamlega dreifir lygum, röngum upplýsingum og hefur enga þekkingu eða reynslu af málefnum trans fólks.“ 

„Við sjáum líka að Sigmundur Davíð, fyrrverandi forsætisráðherra, er að dreifa einhverju sem við getum ekki kallað neitt annað en hatursorðræðu,“ segir Hjalti. Fullorðna fólkið þurfi greinilega líka á fræðslu að halda vegna þess að verið er að dreifa áróðri til þess. Og það geti ekki svarað spurningum barna sinna ef það veit ekki hvað það á að segja.  

„Þannig að þessi fræðsla þarf ekki bara að fara í skólana, hún þarf að fara til kennaranna og hún þarf að fara til foreldranna,“ segir Hjalti. „Og hún þarf greinilega að fara inn á Alþingi líka.“ 

„Ekki hægt að gera svona án þess að fá Pál Óskar“ 

Ingileif segir að það sé krafa fundarins að þetta mál verði tekið fyrir á næstu sveitarstjórnarfundum, á fyrstu fundum nýrrar borgarstjórnar og Alþingis og að þetta verði tekið föstum tökum strax í haust. Hjalti segir að grípa þurfi til aðgerða strax. Til að mynda verði farið fram á auknar fjárveitingar til hópa á borð við Samtökin ‘78 sem geta ekki staðið fyrir jafn mikilli fræðslu og þeim þætti æskilegt sökum fjárskorts.  

„Fólk þarf að mæta á staðinn á morgun og sýna okkar kjörnu fulltrúum að þótt það sé langt í kosningar og allt það þá er þetta engu að síður í okkar höndum að sýna hvað við viljum að sé gert.“ 

Fundurinn, Sýnileikinn er sterkasta vopnið, verður á Austurvelli klukkan 17 fimmtudaginn 30. júní. Haldnar verða ræður og Páll Óskar tekur lagið fyrir viðstadda. „Að sjálfsögðu verður gleðin líka við völd, og sýnileikinn og baráttuviljinn. Og hver annar en Páll Óskar getur hjálpað þjóðinni að finna það í hjarta sínu?“ segir Hjalti. 

Rætt var við Hjalta Vigfússon og Ingileif Friðriksdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2. Viðtalið má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Evrópa

Hunsuðu tilmæli lögreglu

Innlent

„Samhugur Reykvíkinga er með íbúum Óslóar“

Evrópa

Árás á kærleikann og frelsið til að elska

Stjórnmál

Andstaða virðist aukast gegn hinsegin fólki í Evrópu