Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tyrkir styðja NATO-aðild Svía og Finna

28.06.2022 - 18:32
A police officer walk outside the NATO Summit building ahead of the summit in Madrid, Spain, Saturday, June 25, 2022. (AP Photo/Paul White)
 Mynd: AP
Tyrkir styðja aðildarumsókn Svía og Finna að Atlantshafsbandalaginu. Sænska ríkissjónvarpið, SVT, greinir frá þessu. Forsætisráðherra Svíþjóðar, Magdalena Anderson og forseti Finnlands, Sauli Niinistö áttu í dag fund með Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra bandalagsins.

Fundurinn var í Madríd á Spáni en þar hefst leiðtogafundur NATO í kvöld. Svíar og Finnar sóttu um aðild eftir innrás Rússa í Úkraínu. Tyrkir lögðust gegn aðild vegna stuðnings Svía við hópa sem þeir skilgreina sem hryðjuverkahópa. 

Hér má lesa frétt SVT um málið. 

Fundurinn í dag stóð í fjóra klukkutíma og honum var að ljúka á sjöunda tímanum. Sænska ríkisútvarpið hefur eftir Anderson að samkomulag hafi náðst milli Svía, Finna og Tyrkja sem feli í sér að nú styðji þeir síðastnefndu við það að aðildarferli Svía og Finna geti hafist. „Þetta var mjög langur fundur þar sem við Sauli Niinistö gátum farið yfir þær ráðstafanir sem við í Svíþjóð höfum gripið til varðandi hryðjuverkalöggjöf sem við höfum hert mjög á síðustu árum, nú síðast 1. júlí.“

Þá hefur SVT eftir forsætisráðherranum að á fundinum hafi einnig verið rætt um það hvað Svíar hafi fram að færa gangi ríkið í varnarbandalagið.