Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Staða ferðaþjónustu jafnvel betri en fyrir faraldur

Mynd: RÚV / Sölvi Andrason
Ferðaþjónustan á Norðurlandi sér fram á mjög gott sumar og sums staðar stefnir í metfjölda ferðamanna. Hóteleigendur fagna þessu og þó enn sé eitt og eitt herbergi laust, eru sum hótel orðin fullbókuð.

Ferðamenn flykkjast til Norðurlands og Jarðböðin vinsæll áfangastaður

Eftir tvö léleg sumur í heimsfaraldri flykkjast ferðamenn nú til Norðurlands. Starfsfólk í ferðaþjónustu þar er auðvitað ánægt með þessa þróun.  „Já, það eru margir ferðamenn í Mývatnssveit núna, og veit ég að það er brjálað að gera víða, gisting vel nýtt og maður sér alls staðar fólk á labbi vera að skoða og svo er mikil bílaumferð,“ segir Guðmundur Þór Birgisson, framkvæmdastjóri Jarðbaðanna við Mývatn.

Guðmundur segir sumarið fara vel af stað í Jarðböðunum, „það er talsvert mikið af gestum, mikið af ferðamönnum á ferðinni, bæði erlendir og innlendir og gestatölur eru bara sambærilegar og 2019 og jafnvel bara ívið betri þannig það leggst vel í okkur sumarið.“

Stefnir í metár í hvalaskoðun

Það er mikið að gera hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum en erlendir ferðamenn sækja mikið í hvalaskoðun. Hjá sumum þeirra stefnir í metár. „Ég held að það sé orðið alveg ljóst miðað við bókanir að þetta sumar verður bara besta sumar frá upphafi og þetta fyrirtæki hóf náttúrulega störf sem hvalaskoðunarfyrirtæki hér á Hauganesi árið 1993 þannig að það er frábært að sjá þetta koma sterkt inn eftir þetta covid-ástand,“ segir Þorvaldur Kristjánsson, starfsmaður hvalaskoðunarfyrirtækisins Whale watching Hauganes.

Íslendingar lærðu að ferðast um landið á covid-tímanum

Forstjóri KEA-hótela segir mjög mikið bókað hjá þeim, bæði á hótelunum á Akureyri og Siglufirði. Gestirnir séu bæði íslenskir og erlendir. „Þetta er orðin öðruvísi samsetning á gestunum okkar, við höldum enn þá stórum hluta af Íslendingum sem svolítið lærðu að ferðast um landið á covid-tímanum og við búum vel að því þannig það er mjög gott,“ segir Páll L. Sigurjónsson, forstjóri KEA-hótela. Hótelin í landshlutanum eru almennt orðin mikið bókuð þó enn sé eitthvað laust. Lítið gistipláss er orðið eftir fyrir hópa. Páll segir sumarið líta vel út en það sé enn pláss fyrir góða gesti.

Ástandið að verða eins og jafnvel betra en fyrir heimsfaraldur

Viðmælendur voru almennt sammála um að ástandið væri að verða jafn gott og jafnvel betra en fyrir covid. „Já, við erum komin ansi nálægt því svona núna yfir sumartímann. Við skulum segja að við séum komin upp í kannski 80, jafnvel 90% af því sem var á venjulegu ári fyrir covid,“ segir Páll.