
NATO setur 300.000 hermenn í viðbragðsstöðu
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að víðtækustu breytingar sem gerðar hafa verið á stefnu og starfsemi samtakanna um árabil verði til umfjöllunar og samþykktar á fundinum.
Styrkur svokallaðra hraðsveita ríflega sjöfaldaður
Þar ber hæst áætlun um að setja allt að 300.000 hermenn í fulla viðbragðsstöðu vegna innrásar Rússa, en um 40.000 hermenn í svokölluðum hraðsveitum bandalagsins eru í þeirri stöðu núna.
Á fréttafundi í gær sagði Stoltenberg að liður í þessu sé að stórefla fjölþjóðlegar hersveitir bandalagsins í Eystrasaltslöndunum og fimm öðrum ríkjum sem liggja að Rússlandi og öðrum hernaðarlega mikilvægum svæðum.
Fjölgað verður í þessum sveitum svo þær nái stórfylkisstyrk, segir Stoltenberg, sem þýðir tvö- til þreföldun liðsaflans í þessm sveitum upp í 3 -- 5.000 hermenn í hverri. Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur þegar heitið því að fjölga bandarískum hermönnum á herstöðvum bandalagsins í Eystrasaltslöndunum og Póllandi.