Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikilvægur Nató-fundur á Spáni

28.06.2022 - 15:34
A police officer walk outside the NATO Summit building ahead of the summit in Madrid, Spain, Saturday, June 25, 2022. (AP Photo/Paul White)
 Mynd: AP
Í dag byrjar leiðtogafundur Nató í Madríd, sem er höfuðborg Spánar. Nató er líka kallað Atlantshafs-bandalagið á íslensku. Það er samstarf um varnarmál og hernað. Ísland er hluti af Nató. Leiðtogar allra ríkja sem eru í Nató fara á fundinn í Madríd.

Mjög mikilvægur fundur 

Margir segja að fundurinn í Madríd sé mjög mikilvægur. Sumir segja að hann sé einn mikilvægasti fundur sem Nató hefur haldið. Það er af því að Rússar gerðu innrás í Úkraínu. Löndum í Nató finnst það breyta miklu.

Nató ætlar að gera ýmislegt af því að Rússar gerðu innrás í Úkraínu. Til dæmis ætlar Nató að fjölga hermönnum sem eru tilbúnir til bardaga. Og setja upp búnað til að verjast innrás.

Hermönnum verður fjölgað 

Nató ætlar sérstaklega að fjölga hermönnum í löndum sem eiga landamæri að Rússlandi. Að eiga landamæri að einhverju landi er að vera við hliðina á því.

Það eiga mörg Nató-lönd landamæri að Rússlandi. Til dæmis Eystrasalts-löndin. Það eru Eistland, Lettland og Litáen. Nató ætlar að fjölga hermönnum þar.

Finnland og Svíþjóð vilja komast í Nató

Það eru líka mörg lönd sem eiga landamæri að Rússlandi en eru ekki í Nató. Til dæmis Finnland. Núna vill Finnland komast í Nató. Það er af því að Rússar gerðu innrás í Úkraínu.

Svíþjóð vill líka komast í Nató af því að Rússar gerðu innrás í Úkraínu. Finnlandi og Svíþjóð finnst að þau verði öruggari ef þau verða hluti af Nató.

Eitt land er á móti því

Flest löndin í Nató vilja að Finnland og Svíþjóð verði hluti af Nató. Það er bara eitt land í Nató sem vill ekki endilega að Finnland og Svíþjóð verði hluti af Nató. Það er Tyrkland.

Tyrkland vill að Finnland og Svíþjóð breyti ýmsu hjá sér áður en þau fá að verða hluti af Nató. Þessi 3 lönd eru að tala saman um þetta. Þau eru að semja.

Mikil öryggisgæsla í Madríd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er á fundinum í Madríd. Hún er leiðtogi Íslands. Ísland hefur verið hluti af Nató síðan það var stofnað. Katrín ræðir við aðra leiðtoga á fundinum.

Það er mjög mikil öryggisgæsla í Madríd út af fundinum. Það eru herþyrlur á flugi. Það er líka búið að loka mörgum götum nálægt staðnum þar sem fundurinn er. Fólk sem býr í Madríd hefur verið beðið um að vinna heima hjá sér ef það getur.

Atli Sigþórsson
málfarsráðunautur