Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Meirihluti óánægður með úrskurð hæstaréttar

epa10034305 A pro choice demonstrator holds a poster during a protest following the decision by the US Supreme Court to overturn the Roe v. Wade ruling in Los Angeles, California, 25 June 2022. The Supreme Court decision opens the possibility for states to ban abortion.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Meirihluti Bandaríkjamanna er óánægður með þá ákvörðun hæstaréttar að fella úr gildi fyrri úrskurð dómstólsins um rétt kvenna til þungunarrofs, og færa þannig lögsögu þar að lútandi alfarið til einstakra ríkja á ný. 59 prósent þeirra sem afstöðu tóku í skoðanakönnun fyrirtækisins YouGov fyrir CBS-fréttastöðina sögðust ósátt við úrskurðinn en 41 prósent sagðist sátt.

Munurinn er mun meiri ef aðeins er horft til afstöðu kvenna, en 67 prósent þeirra segjast óánægð með úrskurðinn en 33 prósent sátt. Enn meiri munur er á afstöðu fólks eftir flokkslínum. 78 prósent kjósenda Repúblikana eru ánægð með niðurstöðu hæstaréttar, 38 prósent óháðra og aðeins 17 prósent Demókrata.

Einnig var spurt hvort fólk teldi úrskurð dómstólsins fram- eða afturför fyrir Bandaríska þjóð. Samkvæmt könnuninni telur rúmur helmingur, 52 prósent, úrskurðinn marka skref aftur á bak, 31 prósent telur hann framfaraskref en 17 prósent hvorki né.

Þá var spurt, hvaða áhrif fólk teldi úrskurði hæstaréttar hafa á lífsgæði kvenna í Bandaríkjunum. 56 prósent telja dóminn gera líf kvenna erfiðara 16 prósent telja hann munu breyta lífi þeirra til batnaðar en 28 prósent eru á því að hann muni ekki hafa teljandi breytingar á lífsgæðum kvenna í för með sér.