Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Getur haft margfeldisáhrif á samfélög um allan heim

28.06.2022 - 10:28
Mynd: EPA / EPA
Ákvörðun hæstaréttar Bandaríkjanna um að fella úr gildi úrskurð dómstólsins um rétt kvenna til þungunarrofs getur haft áhrif út fyrir Bandaríkin.

„Þetta mun fjölga óöruggum og hættulegum þungarrofum og ekki bara í Bandaríkjunum heldur getur áhrifa þess gætt víða um heim. Af því að þetta getur haft margveldisáhrif á samfélög sem líta til Bandaríkjanna,“ segir Ragnheiður I. Bjarnadóttir kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir í Morgunvaktinni á Rás 1. 

Mæðradauði fimmtalt meiri í Bandaríkjunum

Ragnheiður bendir á að í Bandaríkjunum sé mæðradauði næstum því fimmfalt meiri en á Norðurlöndunum. „Mæðradauði er skilgreint sem dauðsfall konu sem er þunguð eða hefur nýlega verið þunguð. Það eru til mismunandi skilgreiningar en algengasta skilgreiningin er dauðsfall sex vikum eftir að þungun lýkur, ekki endilega eftir fæðingu barns heldur einnig eftir þungunarrof,“ sagði Ragnheiður. 

Sé aðgengi að öruggum getnaðarvörnum og þungunarrofi hindrað eykst hætta á dauðsföllum kvenna sem fá sýkingu eftir hættulegt þungunarrof og kvenna sem hefðu kosið að ganga ekki með börn af ýmsum aðstæðum, svo sem vegna fátæktar eða vegna þess að þær eru í ofbeldissamböndum, að sögn Ragnheiðar. 

„Þó okkur finnist meðganga og fæðing eðlilegasti hlutur í heimi og það er það sem betur í iðnvæddum ríkjum, þá er það ekki alveg án áhættu.“ 

Viðtalið við Ragnheiði I. Bjarnadóttur í Morgunvaktinni má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.