
Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sögðu frá því að nokkur árangur hefði náðst í viðræðunum við Tyrklandsstjórn. Linde sagðist við Svenska Dagbladet vonast til þess að hægt væri að stíga stórt skref á leiðtogafundinum en kvaðst reiðubúin undir að viðræðurnar gætu tekið lengri tíma.
Viðræður hafa staðið yfir frá því ríkin tvö sóttu um í maí en strax þá lýstu Tyrkir andstöðu við umsóknirnar.
Hvert aðildarríki hefur neitunarvald þegar kemur að stækkun NATO. Tyrkir bera því fyrir sig að Finnar og Svíar skjóti skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn úr röðum Verkamannaflokks Kúrda, sem Atlantshafsbandalagið telur til hryðjuverkasamtaka. Hefur Erdogan leitast eftir því að fá það tryggt að ríkin tvö bregðist við þessum aðfinnslum.
Búist er við því að Erdogan fundi sömuleiðis með Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, meðan á leiðtogafundi stendur. Þeir greinendur sem breska ríkisútvarpið ræddi við sögðu að sá fundur gæti skipt sköpum og ráðið úrslitum um hvort Tyrkir samþykki umsóknir Finnlands og Svíþjóðar.