Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um fimm þúsund íslensk ungmenni fá frítt í Strætó

27.06.2022 - 18:11
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Tólf til sautján ára ungmennum stendur til boða frítt strætókort sem gildir á höfuðborgarsvæðinu út júlímánuð. Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir þetta lið í að kynna Strætó fyrir þessum aldurshópi. Opnað var fyrir umsóknir í dag en um er að ræða þrjú til fimm þúsund ungmenni sem eiga kost á að ferðast gjaldfrjálst með Strætó.

Strætó fer af stað með auglýsingar á morgun en að sögn Jóhannesar eiga þau von á fjölmörgum umsóknum. „Við ákváðum að fara í markaðssetningu til að kynna þjónustu Strætó fyrir ungu fólki. Þetta er að fordæmi Svía og annarra Evrópulanda sem réðust í sams konar átak núna í sumar,“ segir Jóhannes. 

Í Svíþjóð fengu ungmenni 12-18 ára frítt samgöngukort í allt sumar en tilgangurinn þar í landi var að fá fólk til að ferðast meira með almenningssamgöngum á ný eftir að verulega dró úr farþegafjölda í faraldrinum. 

Í tilkynningu frá Strætó segir að kortin verði afhent inn á Klapp-korti eða Klapp-smáforriti viðskiptavina, og hægt er að sækja um það á heimasíðu Strætó þar sem nálgast má frekari upplýsingar.

Mynd með færslu
 Mynd: STRÆTÓ
Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.