Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikil verðbólga, hagvöxtur og einkaneysla

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Verðbólga verður sjö og hálft prósent að meðaltali á árinu, samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar, og hagvöxtur rétt rúm fimm prósent. Einkaneysla er meiri og erlendir ferðamenn fleiri en Hagstofan spáði í mars. Þá eiga áhrif stríðsins eftir að vara lengur en áður var talið.

Gert er ráð fyrir að meira en 1,6 ein komma sex milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins á árinu. Þá fara fleiri Íslendingar til útlanda en gert var ráð fyrir og stór hluti af vexti einkaneyslu skýrist af því að íslensk greiðslukort eru straujuð glatt í útlöndum. 

„Horfurnar hafa batnað að mörgu leyti en á móti kemur að óvissan varðandi verðbólguna hefur aukist, [það er] meiri verðbólga sem við gerðum ráð fyrir síðast. Það er sem sagt meiri þróttur í hagkerfinu en áður var talið,“ segir Marinó Melsted deildarstjóri rannsókna- og greiningadeildar Hagstofu Íslands.

Horfur eru á að hagvöxtur verði 5,1 % á þessu ári, en 2,9 á næsta ári. Hagstofan gerir ráð fyrir að verðbólgan verði að meðaltali um sjö og hálft prósent á árinu. Í þjóðhagsspánni í mars var hins vegar spáð 5,9 prósenta verðbólgu á árinu. Eftirspurn eftir starfsfólki er mikil og spáð er að atvinnuleysi verði 3,8 prósent að meðaltali. 

Einkaneysla jókst mikið að fyrsta ársfjórðungi og búist er við að hún vaxi um 4,3 prósent á árinu. Fjárfestingar hafa líka aukist og þar inni eru íbúða- og atvinnufjárfestingar og fjárfestingar hins opinbera. Þetta tvennt skýrir meðal annars aukinn hagvöxt en líka útflutningshorfurnar. Í fyrri spá Hagstofunnar var gert ráð fyrir að erlendir ferðamenn yrðu 1,4 milljónir á árinu en nú er gert ráð fyrir að rúmlega 1,6 milljónir komi hingað til lands. Og svo verða utanlandsferðir Íslendinga fleiri en spáð var: 

„Það er mikil aukning og jafnvel hraðari en [fjölgun] ferðamanna sem koma til landsins. Þannig að stór hluti af þessum vexti í einkaneyslunni er í rauninni eyðsla erlendis sem að fer ekki beint inn í hagkerfið. Það eru sem sagt Íslendingar bara að strauja kort erlendis í fríum.“

Hvað var það sem að kom þér mest á óvart?

„Það er náttúrulega að verðbólguhorfurnar, það er svona dramatískasta breytingin. Þegar við gerðum spána í mars, síðustu spá, þá var í rauninni verið að gera spána í fyrstu viku innrásar Rússa í Úkraínu. Þannig að svona alþjóðavíddin í verðbólguspánni var tiltölulega óþekkt, hversu lengi hún myndi vara. En nú er orðið ljóst að áhrifin eru langvarandi þar eða til lengri tíma. Það er orðið ljóst. Og svo hefur húsnæðismarkaðurinn komið á óvart líka hversu miklar hækkanir, þær hafa verið meiri en við gerðum ráð fyrir,“ segir Marinó.