Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fjögur mótsmet í Kaplakrika

Mynd með færslu
 Mynd: MummiLu

Fjögur mótsmet í Kaplakrika

27.06.2022 - 09:45
Flestir af bestu frjálsíþróttamönnum landsins voru meðal keppenda á Meistaramóti Íslands í frjálsum um helgina. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður voru fjögur mótsmet sett og hlaupið var undir Íslandsmetinu í 100 metra hlaupi.

FH varð Íslandsmeistari félagsliða á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór um helgina í Kaplakrika. Í karlaflokki varð það þó ÍR sem bar sigur úr býtum en FH kvennamegin. Mikill vindur gerði keppendum erfitt fyrir á mótinu.

Ef litið er til árangursstiga á stigatöflu Alþjóða frjálsíþróttasambandsins þá var það sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson úr FH sem náði besta árangri mótsins. Hann kastaði sleggjunni 75,20 metra, sem er mótsmet, og hlaut fyrir það 1120 stig. Tiana Ósk Whitworth, spretthlaupari úr ÍR, náði einnig góðum árangri um helgina en hún hljóp 100 metrana á 11,69 sekúndum og hlaut 1054 stig fyrir. Eðli málsins samkvæmt unnu þau bæði sínar greinar en Tiana Ósk fékk einnig gull í 4x100 metra boðhlaupi með sveit ÍR.

Íslandsmethafar unnu sínar greinar

Í millivegahlaupunum voru kunnugleg andlit á verðlaunapallinum. Hlynur Andrésson, Íslandsmethafi í maraþonhlaupi, setti mótsmet í 5000 metra hlaupi, 14:13,92, þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Annar Íslandsmethafi, Baldvin Þór Magnússon, varð Íslandsmeistari í 1500 metra hlaupi karla nokkuð örugglega á tímanum 4:06,60. Þá vann Aníta Hinriksdóttir 800 metra hlaup kvenna á tímanum 2:11,46 en Aníta hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár vegna meiðsla eftir að hafa skotist hratt upp á stjörnuhimininn á sínum tíma. 

Af öðrum keppendum má nefna að Erna Sóley Gunnarsdóttir setti mótsmet í kúluvarpi með kasti upp á 16,54 metra og slíkt hið sama gerði Elísabet Rut Rúnarsdóttir í sleggjukasti með kasti upp á 62,30 metra. Þá hljóp Kolbeinn Höður Gunnarsson 100 metra hlaup karla undir Íslandsmeti Ara Braga Kárasonar, 10,51 sekúnda, en meðvindur í hlaupinu var of mikill svo tíminn standi.

Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason varð Íslandsmeistari í kringlukasti og kúluvarpi en hann fékk mikla samkeppni frá Mími Sigurðssyni í fyrrnefndu greininni. Þá vann Ingibjörg Sigurðardóttir bæði 400 metra hlaup kvenna á mótinu, grindahlaup og grindalaust hlaup. Sigursælustu keppendur mótsins voru hins vegar Íris Anna Skúladóttir og Daníel Ingi Egilsson sem urðu þrefaldir Íslandsmeistarar. Íris Anna vann 1500  og 5000 metra hlaup og var í sigursveit FH í 4x400 metra boðhlaupi kvenna. Daníel Ingi vann langstökk og þrístökk og var svo í sigursveit FH í 4x100 metra hlaupi karla. 

Yfirlit yfir aðra sigurvegara á mótinu má finna á hér.

Mynd með færslu
 Mynd: MummiLu
Tiana Ósk Whitworth varð Íslandsmeistari í 100 metra hlaupi kvenna um helgina.