Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Eins og að tala við stein“ að vara meirihlutann við

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Borgarfulltrúi Flokks fólksins segir að miklir fjármunir hafi verið lagðir í skipulagningu tæplega sjö hundruð íbúða byggðar í Skerjafirði sem innviðaráðherra hefur sett á ís. Hún efast um að þeir fjármunir nýtist. Meirihlutinn hafi virt að vettugi athugasemdir minnihlutans síðastliðinn tvö ár. 

Í bréfi sem innviðaráðherra sendi borgarstjórn Reykjavíkur nýverið segir að það sé með öllu óásættanlegt að farið sé í framkvæmdir við nýja íbúabyggð í Skerjafirði án þess að tryggt sé að þær hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Ráðuneytið stöðvaði í raun framkvæmdirnar og hefur skipað starfshóp um málið. Borgin áformar að byggja 690 íbúðir í Skerjafirði.

Eins og tala við stein

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir minnihlutann hafa gert fjölda athugasemda við málið síðastliðin tvö ár. 

„Og það var náttúrulega bara eins og tala við stein. Þegar maður lítur til baka þá hugsar maður hvað þetta er búið að vera kjánalegt, hvað síðasti meirihluti fór á undan sér í þessu máli, þrátt fyrir ítrekuð varnarorð og beiðni um að bíða með svona stórt verkefni sem þetta er,“ segir Kolbrún.

Furðar sig á því að talað sé um þolanlega áhættu

Kolbrún segir að fólki hefði átt að vera ljóst að framkvæmdir með stórum vinnuvélum hefðu getað ógnað flugöryggi. Hún gagnrýnir svör borgarinnar og tillögur að mótvægisaðgerðum.

„Og maður hugsar auðvitað bara um líf og limi fólks. Það hlýtur að vera númer eitt. En þeir tala um þolanlega áhættu í þessu bréfi sem mér finnst ótrúlega kjánalegt og kjánalega orðað. En þessi vinna var einfaldlega ekki tímabær og mun kannski eiga eftir að kosta borgarbúa háar fjárhæðir,“ segir Kolbrún.

Vill upplýsingar um fjárútlát

Kolbrún er efins um að sú skipulagsvinna sem lagt hefur verið í, nýtist öll þegar grænt ljós verður gefið á framkvæmdir. Hún hyggst spyrja meirihlutann hversu miklir fjármunir hafa verið lagðir í verkefnið. 

„Þarna er búið að skipuleggja heilu hverfin og mörg hundruð íbúðir og innviði. Þannig að þetta hefur kostað mikið. Það er búið að leggja mikið fjármagn í þessa uppbyggingu,“ segir Kolbrún.