Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ég er sextíu og sex ára og ég sakna mömmu“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég er sextíu og sex ára og ég sakna mömmu“

27.06.2022 - 18:06

Höfundar

Bubbi Morthens svaraði tuttugu erfiðum spurningum þar sem kom í ljós að hann sér mest eftir því að hafa ekki náð að vera edrú þegar mamma hans dó og minningar um hana sækja á hann enn. Sömuleiðis grætur hann vegna barna sinna og hve flott konan hans er.

Tónlistarmaðurinn víðkunni, Bubbi Morthens, hefur farið nokkra hringi í kringum landið og spilað á öllum félagsheimilum sem fyrirfinnast. Bubbi ræðir við þá Sigurð Þorra Gunnarsson og Friðrik Ómar Hjörleifsson í Félagsheimilinu á Rás 2 og svarar 20 spurningum sem enginn vill svara.  

Spiluðu í fjóra klukkutíma fyrir einn mann  

Líkt og áður segir hefur Bubbi komið víða við og haldið tónleika og böll í félagsheimilum landsins. „Ég var samt mjög fljótur að vilja ekki spila á böllum,“ segir Bubbi. „Bæði út af því að ég var svona með egó. Ég leit ekki stórt á mig en mér fannst einhvern veginn að lögin mín ættu bara að vera þannig að fólk hlustaði og meðtæki.“  

„Utangarðsmenn spiluðu í félagsheimilum en það kom enginn,“ segir Bubbi. „Fyrsti túrinn var á Húsavík. Ég held að það hafi komið tíu til tuttugu manns.“ Eitt sinn spiluðu þeir í félagsheimili á Melrakkasléttu og þar mætti einn áhorfandi. „Það var skólastjórinn á Kópaskeri, Pétur Þorsteinsson. Hann sagði að þetta væru bestu tónleikar sem hann hefði komið á síðan hann heyrði í Óðmönnum 1963,“ segir Bubbi og hlær. Þeir spiluðu fyrir skólastjórann í fjórar klukkustundir, hvorki meira né minna. „Við vorum hvort sem er með húsið, hvað áttum við að gera?“  

„Flaska sett á borðið og svo var bara drukkið og slegist“  

„En ég á minningar með GCD, það var rosalegt. Þá troðfylltum við hvert einasta félagsheimili sem við komum í og settum aðsóknarmet,“ segir Bubbi og þótti það virkilega gaman. „En einhvern veginn þykir mér og hefur alltaf þótt skemmtilegra að spila tónleika.“  

„En ég skil og finnst þetta bara fallegt, félagsheimilin og sveitaböllin. Ég sakna þessara tíma,“ segir hann og minnist þess þegar hann var á vertíð í gamla daga. „Þá voru bara tvær harmónikkur uppi á sviði. Svo var sett flaska á borðið og svo var bara drukkið og slegist og síðan var tekinn polki og ræll.“  

Mynd: RÚV / RÚV
Bubbi svaraði tuttugu spurningum sem enginn vill svara

Myndi af fenginni reynslu tala sem minnst um sjálfan sig   

Bubbi svaraði tuttugu spurningum sem enginn vill svara. Þar var hann meðal annars spurður hverjir hans helstu kostir væru. „Dugnaður og útsjónarsemi. Ég er með snilligáfu, ég er góður á gítar, ég er hógvær og auðmjúkur og ég er duglegur fram úr hófi,“ segir Bubbi glettinn. „Þetta eru svona kostirnir mínir. Ég er kærleiksríkur og ég hef skánað með árunum.“  

Hann svarar að ef hann ætli að heilla karlmann upp úr skónum vegna þess að hann vanti eitthvað frá honum myndi hann segja: „Helvíti líturðu vel út, ertu búinn að vera í ræktinni? Svo myndi ég segja, flottir skór.“ Síðan myndi hann sjá að hann væri á yaris-bíl og hrósa kagganum. „Svo myndi ég segja við hann: Færðu frí frá konum?“  

Hins vegar myndi hann nálgast konu á allt annan hátt. „Ég myndi af fenginni reynslu reyna að tala sem minnst um sjálfan mig. Og hlusta.“  

„Ég græt stundum inni í mér“  

Bubbi segir sína mestu eftirsjá vera að hafa ekki náð að vera edrú þegar móðir sín dó og að sama skapi græta minningarnar um hana hann enn. „Ég sakna mömmu alveg bara hvern einasta dag. Ég er sextíu og sex ára og sakna mömmu,“ segir hann.   

„Ég græt stundum inni í mér, til dæmis núna um daginn því ég vildi ekki sýna það,“ segir Bubbi. Konan hans, Hrafnhildur, hefur verið að læra salsadans og er orðin nokkuð góð en Bubbi hefur ekki getað verið með henni vegna þess hve mikið hefur verið að gera með leiksýninguna Níu líf. „Hún sýndi mér vídjó og þá grenjaði ég inni í mér vegna þess að mér fannst hún svo sjúklega flott og góð.“  

Mest óþolandi í fari Bubba segir hann vera hvað hann tali rosalega mikið og sjálfur fer hann mest í taugarnar á sér. Það sem reitir hann til reiði er þó ósanngirni, dónaskapur og fordómar. „Og þá mínir fordómar líka meðteknir,“ segir hann. Og mest óttast hann sársauka áður en hann deyr.  

„Ég á engar beinagrindur“   

„Maður bara svarar,“ segir Bubbi að spurningunum loknum. „Ég hef ekkert að óttast. Ég var svo sniðugur snemma á ferlinum að segja bara allt sem ég óttaðist um að myndi fréttast um mig,“ segir hann. „Og svo hef ég oft pælt í því, hvað ætlar fólk að hafa á mig? Hvað ætla menn að segja?“ Ef einhver ætli sér að vera vondur eða leiðinlegur við hann geti hann ekki uppljóstrað neinu.  

„Ég á engar beinagrindur, þær eru allar sjáanlegar,“ segir Bubbi. „Ég er búinn að segja alla þessa hluti og bara verði ykkur góðu og haldið kjafti.“  

Rætt var við Bubba Morthens í Félagsheimilið á Rás 2. Viðtalið má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér að ofan sem og hægt er að horfa á spurningaleikinn. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Hingað til höfum við staðist þessa freistingu“