Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Allir eiga að komast þangað sem þeir vilja“

27.06.2022 - 20:49
Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir / Ljósmynd
Allir eiga að komast þangað sem þeir vilja, segja tólf ára vinkonur í Mosfellsbæ. Þær hafa beðið bæinn um að bæta úr aðgengismálum hið fyrsta, tvær þeirra eru í hjólastól.

Arnheiður, Árdís, Dagbjört og Laufey eru 12 ára og búa í Mosfellsbæ. Tvær þær fyrstnefndu eru í hjólastól og hafa ítrekað rekið sig á að hafa ekki sama aðgengi og hinar. Vinkonuhópurinn sendi nýverið erindi til skipulagsnefndar bæjarins þar sem þær óskuðu eftir að þetta yrði lagfært. Með því fylgdu myndir af ýmsum stöðum í bænum þar sem aðgengi er ábótavant.

„Það er bara þannig að allir eiga að geta farið á þá staði sem þeir vilja,“ segir Árdís Heiðarsdóttir, ein stelpnanna.

„Við vorum í göngutúr og við þurftum að taka þær úr stólunum til að komast niður ramp, þannig að þær myndu ekki meiða sig. Og það er ekki gott,“ segir Laufey Ósk Brynjarsdóttir. Vinkona hennar, Dagbjört Sunna Georgsdóttir Bagguley, tekur undir þetta: „Það er bara svo erfitt þegar stelpur í hjólastólum og aðrir í hjólastólum eru með svona vont aðgengi,“ segir hún.

Arnheiður Heiðarsdóttir segir að margir þurfi á bættu aðgengi að halda. „Líka fólk með barnavagna og göngugrindur, gamalt fólk og blint fólk,“ segir hún.

Stelpurnar eru ekki í vafa um að gera megi betur - það sé allra hagur.

„Fyrir fatlað fólk eins og okkur Árdísi og fyrir umhverfið,“ segir Arnheiður. „Fyrir fólkið sem á vandamál með þetta.“

Skipulagsnefnd tók vel í erindi stelpnanna og til stendur að kanna úrbætur. Þetta var í fyrsta skipti sem þær sendu erindi til bæjarins og þær hvetja aðra krakka til að láta til sín taka ef þá langar til að hafa áhrif. 

„Það skiptir máli að tala við krakka og heyra hver erindi þeirra eru,“ segir Árdís. Og Arnheiður systir hennar bætir við: Og líka hlusta stundum á fólk.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir