Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Samhugur Reykvíkinga er með íbúum Óslóar“

epaselect epa10034710 Norwegian Crown Princess Mette-Marit lights candles during a memorial service for the victims of a shooting that occurred the previous day, at Oslo Cathedral in Oslo, Norway, 26 June 2022. Two people were killed and over 20 were injured when a gunman fired shots outside a nightclub and surrounding areas on 25 June.  EPA-EFE/Javad Parsa / POOL NORWAY OUT
 Mynd: EPA
Einar Þorsteinsson starfandi borgarstjóri, sendi í gær samúðarkveðju til Marianne Borgen borgarstjóra Ósló, og íbúa Óslóarborgar í kjölfar mannskæðrar skotárásar í borginni aðfaranótt laugardags.

Tveir létust í árásinni og tuttugu og einn eru særðir. Árásinni var beint að hinsegin fólki sem var að skemmta sér í miðborg Ósló í aðdraganda gleðigöngunnar. Gangan átti að fara fram í gær, en var aflýst vegna atburðarins og aukins hættustigs í borginni. Litið er á árásina sem hryðjuverk.

Starfandi borgarstjóri segir að samhugur Reykvíkinga sé með íbúum Óslóar og þeim sem eiga um sárt að binda vegna grimmdarverkanna. Standa þurfi vörð um grunngildi samfélagsins, ekki megi bugast í baráttu gegn ótta og hatri.

Samúðarkveðja starfandi borgarstjóra:

Kæri borgarstjóri Marianne Borgen,

Fyrir hönd Reykvíkinga, vil ég votta þér mína dýpstu samúð vegna þeirra vofveiflegu atburða sem áttu sér stað í Osló aðfaranótt 25. júní.

Núna sem aldrei fyrr þurfum við að standa vörð um þau grunngildi sem samfélög okkar byggja á. Við látum hvergi bugast í baráttunni gegn ótta og hatri og upphefjum kærleika og umburðarlyndi.

Hjörtu okkar og hugsanir eru sérstaklega hjá þeim sem nú syrgja ástvini, hinum særðu og hinsegin samfélaginu sem hefur orðið fyrir enn einni árásinni. Samhugur Reykvíkinga er með öllum íbúum Oslóar og þeim sem eiga um sárt að binda vegna þessara óskiljanlegu grimmdarverka.