Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lufthansa aflýsir þúsundum flugferða

26.06.2022 - 01:28
epa07936570 A Lufthansa Airbus A321-100 aircraft approaches Tegel airport, in Berlin, Germany, 20 October 2019.  EPA-EFE/FELIPE TRUEBA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þýska flugfélagið Lufthansa hefur aflýst yfir 3.000 fyrirhuguðum flugferðum það sem eftir lifir sumars. Jafnframt er talið að lággjaldaflugfélagið Eurowings, dótturfélag Lufthansa, þurfi að grípa til svipaðra aðgerða. Fleiri alþjóðleg flugfélög hafa þurft að aflýsa þúsundum flugferða í sumar, einkum vegna manneklu.

Þýska blaðið Die Welt hefur eftir Detlev Kayser, stjórnarmanni í Lufthansa, að óraunhæft sé að ætla að fyrirtækinu takist að leysa þau vandamál sem við sé að glíma nógu hratt til að bæta ástandið í sumar. Hins vegar vonist stjórn þess til að reksturinn komist í eðlilegt horf á næsta ári.

Mannekla eftir tveggja ára dvala

Lufthansa glímir við sama vanda og mörg flugfélög önnur nú þegar ferðaþjónustan er aftur komin á fullan skrið; mikla manneklu í kjölfar þess að starfsemin lá nánast niðri um tveggja ára skeið vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Sem dæmi má nefna að norræna flugfélagið SAS neyddist til að aflýsa þúsundum flugferða í sumar af sömu sökum. Sama vandamál herjar á fleiri greinar ferðaþjónustunnar. Hér á landi hefur þegar orðið vart við skort á hvorutveggja leiðsögumönnum og starfsfólki í gisti- og veitingageiranum, og erlendis ríkir víða öngþveiti á flugvöllum vegna manneklu.