Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Eftirför lögreglu endaði með árekstri

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Rán og eftirför sem endaði með árekstri, líkamsárás ungs drengs og innbrot voru á meðal þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tókst á við í gærkvöld og nótt.

Réðst á kassastarfsmann í Nettó í Lágmúla

Um hálf-átta leytið í gærkvöld réðst karlmaður á kassastarfsmann matvöruverslunar Nettó í Lágmúla með ofbeldi og offorsi, stal peningum úr sjóðsvél og flúði svo akandi af vettvangi.

Lögregla sá bíl hans skömmu síðar og hófst þá eftirför sem endaði með árekstri á Reykjanesbraut, ekki fjarri Smáralind. Áður hafði búðarræninginn ekið utan í minnst tvær bifreiðar, segir í fréttaskeyti lögreglu. Fram kemur að hann hafi ekið á miklum hraða og að hluta til á móti umferð. Engin slys urðu á fólki og var maðurinn handtekinn og færður í fangageymslu. 

Ungur drengur reyndi að ræna ungar stúlkur

 Laust fyrir miðnætti barst lögreglu svo tilkynning um líkamsárás í hverfi 108. Þar hafði ungur drengur í annarlegu ástandi ráðist á tvær stúlkur og reynt að ræna þær. Sló hann aðra þeirra krepptum hnefa í andlitið, en stúlkurnar hlupu til foreldra sinna.

Mun drengurinn hafa hlaupið á eftir þeim og ráðist að föður stúlkunnar sem hann kýldi, en þegar lögregla kom á vettvang var honum haldið föstum. Var drengurinn handtekinn og vistaður á viðeigandi stofnun í samráði við foreldri og barnavernd, segir í tilkynningu lögreglu.

Innbrot og vímuakstur

Tilkynnt var um tvö innbrot í gærkvöld, annað í iðnaðarhúsnæði í Kópavogi um hálfníuleytið en hitt í hjólhýsi í Árbæ um hálfeitt í nótt. Tveir menn voru handteknir á vettvangi í Kópavoginum og einn í Árbænum.

Þá var töluvert um ölvunar- og vímuakstur á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og nótt.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV