Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Allt að 500 manns leita á Læknavaktina daglega

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjúklingar á Læknavaktinni hafa þurft að bíða í marga klukkutíma eftir þjónustu vegna álags þar síðustu vikur. Gunnlaugur Sigurjónsson, stjórnarformaður Læknavaktarinnar, segir að aðsóknin sé töluvert meiri en sést hefur áður.

Gunnlaugur Sigurjónsson, stjórnarformaður Læknavaktarinnar, segir að álagið megi rekja til síðasta hausts þegar covid-smitum fækkaði og almenningur fór á stjá eftir langt tímabil af samfélagslegum takmörkunum. Þá hafi aðrir smitsjúkdómar aukist og álagið á læknavaktinni hafi verið mikið síðan.

„Á virkum degi þá eru þetta á milli tvö og þrjú hundruð og um helgar eru þetta milli fjögur og fimm hundruð manns sem eru að koma,“ segir Gunnlaugur. „Þetta má segja að þetta séu 100 fleiri en þegar mest hefur verið í flensutímum á fyrri árum.“

Gunnlaugur segir að vegna aukins álags á heilsugæslustöðvum leiti fleiri til Læknavaktarinnar til að fá heilbrigðisþjónustu.

„Læknavaktin fær yfirflæði af því sem heilsugæslustöðvarnar geta ekki sinnt. Þannig vandamálið er í raun veik heilsugæsla á dagvinnu,“ segir Gunnlaugur.

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV