Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þjóðaröryggisráð metur þörf á viðveru varnarliðs

Mynd: RÚV / RÚV
Þjóðaröryggisráð hefur hafið mat á því hvort þörf sé á viðveru varnarliðs hérlendis vegna breyttrar stöðu í öryggis- og varnarmálum, í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.

Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði, ræddu öryggis- og varnarmál í Vikulokunum í morgun í ljósi breyttar stöðu heims- og Evrópumála í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.

Diljá Mist segir að innrásin hafi orðið til þess að endurhugsa þurfi öryggismál Íslands að miklu leyti. Grundvallarbreyting hafi orðið með innrásinni fyrir fjórum mánuðum. Ræða þurfi hvort staðan kalli á fasta viðveru varnarliðs og slíkt mat sé hafið á vettvangi þjóðaröryggisráðs.  
  
„Mögulega þurfum við að hafa hérna fasta viðveru varnarliðs. Við verðum að minnsta kosti að ræða þetta.“ 

Efasemdaraddir þagnað

Hún segir að fyrst um sinn hafi efasemdaraddir heyrst um það hversu mikil áhrif stríðið myndi hafa hérlendis, en þær raddir hafi að miklu leyti þagnað eftir því sem innrásinni hefur undið fram.  

„Sem betur fer, að minnsta kosti frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók við í utanríkisráðuneytinu fyrir örfáum árum síðan, þá hefur verið farið í miklar skipulags- og áherslubreytingar þegar kemur að öryggis- og varnarmálum.“

Varnarmálaskrifstofa hafi meðal annars verið endurvakin og deild fjölþáttaógna hafi verið stofnuð. Þrátt fyrir að sögulega séð hafi ekki verið eining um stefnu í varnarmálum, sé þjóðaröryggisstefna í gildi sem stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að fylgja. Þannig hafi beinlínis verið fjárfest töluvert í vörnum landsins í samræmi við stefnuna.

„Á undanförnum árum hefur verið eytt meira í viðhald til dæmis á varnarmannvirkjum á öryggissvæðinu í Keflavík heldur en í marga áratugi þar á undan,“ segir Dilja og bætir við að Íslandi beri að sinna þeim skuldbindingum sem landið hafi undirgengist í öryggis- og varnarmálum.

„Það þýðir auðvitað að við verðum að vera með varnir og viðbúnað til staðar til að uppfylla þessar skuldbindingar.“

Stuðningur við NATO og ESB aukist

Baldur segir að nýlegar rannsóknir sem gerðar hafi verið í Háskóla Íslands, sýni aukinn stuðning við aðildina að NATO sem og aðild að Evrópusambandinu.

„Það er að eiga sér stað viðhorfsbreyting meðal almennings hérlendis, hún kemur sérstaklega fram í stuðningi við ESB en líka í stuðningi við NATO. Þetta er mjög athyglisvert, þó þetta séu ekki eins miklar sveiflur og við sjáum í Finnlandi og Svíþjóð. 

Hann segir að stjórnmálin á Íslandi hafi ekki enn brugðist við þessum breytingum í viðhorfi almennings. 

„Við erum í rauninni eina ríki Norðurlanda sem ekki hefur farið í ígrundað mat eftir innrásina í Úkraínu, á því hvort hér þurfi að styrkja varnir landsins.“ Heilmikið hafi vissulega gerst í utanríkisráðuneytinu og á öryggissvæðinu í Keflavík, en opinbera umræðan hafi farið hljótt líkt og um feimnismál sé að ræða. 

Ekki veikasti hlekkurinn

Baldur segir að varnir byggist að miklu leyti á fælingarmætti og þess vegna þurfi að vera ljóst hvernig vörnum landsins sé háttað. Ísland megi ekki vera veikasti hlekkurinn í varnarkeðjunni í Norður-Atlantshafi.

„Í þessu samhengi finnst mér mikilvægt og við þurfum að ræða að við erum eina aðildarríki NATO með loftrýmisgæslu sem er bara þrjá til fjóra mánuði á ári. Öll önnur aðildarríki eru með loftrýmisgæslu allt árið um kring. Við erum líka eina aðildarríki NATO sem ekki er með lítið varnarlið. Við þurfum að ræða þetta.“

Hann bætir við að fleiri ógnir kunni að stafa að landinu og því þurfi samhliða að huga að netöryggi og öryggi sæstrengja.

„Við verðum að gera ráð fyrir því í varnarstefnu landsins að átökin breiðist út. Þó að sjálfsögðu við vonum að það gerist ekki. Við þurfum að fara, finnst mér, í sjálfstætt mat, meta þetta sjálf, Íslensk stjórnvöld, á hverju við þurfum að halda. Svo tökum við að sjálfsögðu viðræður við okkar bandalagsríki hvernig um það hvernig þessu er best háttað og komumst að niðurstöðu um hvernig við högum vörnum okkar,“ segir Baldur Þórhallsson.

Í spilaranum hér að ofan má hlusta á samtal Diljár og Baldurs við Sigríði Dögg Auðunsdóttur og Björn Malmquist í Vikulokunum í morgun.