Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telja að Baldur uppfylli ekki öryggiskröfur

Baldur dreginn í höfn af dráttarbátnum Fönix þegar hann varð vélarvana í apríl 2021
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Stykkishólmsbær og Helgafellssveit lýsir yfir þungum áhyggjum af öryggismálum Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Sveitarfélagið bendir á að ferjan uppfylli ekki viðeigandi öryggiskröfur.

Þetta kemur fram í ályktun bæjarráðs sameinaðs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar.

Í henni minnir bæjarráð á að 15 mánuðir séu síðan ferjan varð vélarvana á miðjum Breiðafirði þar sem tók rúman sólarhring að draga ferjuna í land í Stykkishólmi við slæm skilyrði. Baldur hefur tvisvar bilað í Breiðafirði síðan, nú síðast fyrir viku síðan, þann 18. júní.

Sveitarfélagið leggur áherslu á að finna hentugra skip til að taka siglingum um Breiðafjörð. Núverandi ferja hefur einungis eina vél, en allar ferjur sem hafa þjónustað svæðið síðan 1955 hafi haft tvær vélar. Ítrekaðar bilanir á vélabúnaði Baldurs undirstriki það að nauðsynlegt sé að skipið hafi tvær vélar. 

Þá hvetur sveitarfélagið til þess að viðbúnaður sé efldur í Stykkishólmi til að tryggja öryggi sjófarenda og til að byggja aftur upp traust á siglingum með núverandi ferju. 

Fjallað var um ferjuna Baldur í fréttaskýringaþættinum Kveik í apríl.