Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skutu 16 ára Palestínupilt til bana á Vesturbakkanum

epa10031893 Israeli soldiers fire tear gas at Palestinian protesters during clashes after a demonstration against Israel's settlements on the lands of Qaryoy village near the West Bank city of Nablus, 24 June 2022.  EPA-EFE/ALAA BADARNEH
Ísraelskir hermenn skjóta táragasi að Palestínumönnum sem mótmæla landráni íslraelskra landtökumanna nærri Nablus á Vesturbakkanum. Landtökumenn fylgjast með. Mynd: EPA-EFE - EPA
Palestínskur táningspiltur lést af sárum sínum, sem hann hlaut þegar ísraelskir hermenn skutu hann á hernumdu svæðunum á Vesturbakkanum í gær. AFP-fréttastofan hefur þetta eftir palestínskum heimildarmönnum. Pilturinn, hinn sextán ára Mohammad Hamad, var skotinn nærri þorpinu Silvad á norðanverðum Vesturbakkanum, ekki langt frá Ramallahborg, á föstudagskvöld, og andaðist nokkrum klukkustundum síðar.

 

Róstusamt hefur verið á Vesturbakkanum og í Jerúsalem undanfarna mánuði. Palestínumenn og ísraelskir Arabar hafa drepið nítján manns, aðallega ísraelska ríkisborgara, frá því í síðari hluta mars. Ísraelsher hefur skotið þrjá ísraelska Araba og minnst 46 Palestínumenn til bana í aðgerðum sínum á sama tíma.

Ísraelsku Arabarnir þrír voru vegnir eftir að þeir bönuðu fólki í Ísrael. Í hópi Palestínumannanna 46 eru nokkrir grunaðir vígamenn, segir í frétt AFP, en líka almennir borgarar, þar á meðal palestínsk-bandaríska fréttakonan Shireen Abu Aqla, sem ísraelskir hermenn skutu í höfuðið þar sem hún var að störfum fyrir Al Jazeera í Jenín á Vesturbakkanum, rækilega merkt sem fréttakona.