Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óttast að gögn um blæðingar verði notuð gegn konum

Nokkuð er um að konur í Bandaríkjunum séu hvattar til að eyða blæðingasmáforritum og gæta betur að stafrænu fótspori sínu á internetinu, eftir ákvörðun hæstaréttar í gær. Hætta sé á því að upplýsingum um tíðahring þeirra og kynheilsu sé safnað og þær notaðar gegn þeim.

Margar konur og stúlkur nota öpp eins og Flo til að fylgjast með tíðahringnum. Ákvörðun hæstaréttar í gær hefur vakið spurningar um hvað gert sé við upplýsingarnar sem þar er safnað, því persónuverndarlöggjöfin í Bandaríkjunum er ólík þeirri Evrópsku.

„Það gerir það að verkum að þeir sem eru með svona öpp geta safnað svona upplýsingum, selt þær og deilt þeim, með fjölbreyttari hætti en má hérna í Evrópu,“ segir María Rán Bjarnadóttir, verkefnastjóri stafræns ofbeldis hjá Ríkislögreglustjóra.

Undanfarinn sólarhring hefur borið á því að sérfræðingar í upplýsingatækni hvetji konur í Bandaríkjunum til að eyða smáforritum sem þær nota til að fylgjast með tíðahringnum. Þær þurfi líka að verða meðvitaðri en áður um þær upplýsingar sem sé safnað um þær á internetinu.

Gætu kortlagt hvaða konur þurfa á þungunarrofi að halda

María segir að verið sé að segja við konur að hægt verði að selja upplýsingar um hvernig tíðarhringurinn þeirra sé, og í rauninni hvort þær séu óléttar eða ekki, þar sem margar konur setja þær upplýsingar oft inn í appið.

„Og svo til viðbótar er að þessir eftirlitsmöguleikar sem eru innbyggðir í það að við erum að fjármagnsvæða alla tæknina, gerir það að verkum að það verður auðvelt fyrir ríki eins og þau sem hafa verið að setja mjög harkalega löggjöf að fara fram á upplýsingar um konur eða hreinlega kaupa gagnasöfn í ríkinu og kortleggja hvaða konur gætu þurft á þungunarrofi að halda í ríkinu og targetera þær,“ segir María Rún.

Lög sem banna þungunarrof taka gildi í þrettán ríkjum á næstu dögum. En getur farið svo að konur verði dæmdar fyrir morð fyrir þungunarrof?

„Já, ég held það. Það yrði ekkert einsdæmi, við höfum dæmi frá öðrum ríkjum í Ameríku, í Suður-Ameríku. Þannig að ég held að það sé alls ekkert fráleitt,“ segir María.