Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Víkingur kemst áfram eftir sigur á Inter d'Escaldes

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Víkingur kemst áfram eftir sigur á Inter d'Escaldes

24.06.2022 - 21:47
Íslands- og bikarmeistararnir í knattspyrnu, Víkingur frá Reykjavík, vann sigur í kvöld á Andorrameisturum Inter d'Escaldes, 1 - 0 með marki frá Kristal Mána Ingasyni. Sigurinn gerir það að verkum að Víkingar munu mæta sænsku meisturunum í Malmö í 1.umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Það voru frekar stressaðir áhorfendur og áhangendur Víkings sem fóru í kaffisopann í hálfleik á Víkingsvellinum í kvöld.  Staðan í hálfleik 0-0 og á köflum í fyrri hálfleik var mjög tæpt á því að meistararnir frá Andorra kæmu boltanum yfir marklínu Víkings.  

Margir töldu fyrir leik að þetta yrði einfalt mál fyrir sterkt Víkingsliðið að klára þennan leik. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, sagði í viðtali við Rúv eftir sigurleikinn á móti Levadia Tallinn á miðvikudaginn var, að það þyrfti að ná leikmönnum niður eftir leikinn til að ná að einbeita sér að þessum leik.  Á köflum í fyrri hálfleik var bara ekki að sjá að þetta Víkingslið væri það sama og vann á miðvikudaginn afar stórar sigur.

Seinni hálfleikur byrjaði á því að Víkingur gerði breytingar á leikskipulaginu og fór í byrjun í leikkerfið 3-4-3 en breytti svo stuttu seinna í 4-3-3.  Það var eins og það setti smá líf í leikinn og Víkingur átti nokkur góð færi en inn vildi boltinn ekki.  Það var ekki fyrr en á 67 mínútu leiksins sem pressunni var létt af Víkingsmönnum þegar Kristall Máni Ingason skallaði boltann í net Inter d'Escaldes liðsins eftir frábæra fyrirgjöf frá Karli Friðleifi.  

Þetta var það sem Víkingur þurfti í leiknum og nóg til að komast áfram í 1.umferð Meistaradeildar Evrópu en þar mætir liðið sænsku meisturunum í Malmö.  Liði Malmö stýrir Milos Milojevic en hann þekkir vel til Víkingsliðsins enda bæði fyrrum leikmaður og þjálfari liðsins.  Arnar Gunnlaugsson sagði í viðtali við Rúv eftir leikinn á miðvikudaginn að ef liðið kæmist í þessa stöðu þá væri það stærsta áskorun hans á ferlinum sem þjálfari að takast á við þann leik.

Niðurstaða þessa leiks góður sigur Víkings og góður sigur fyrir íslenska knattspyrnu.