Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sóttu hrakið göngufólk í Gæsavötn við Vatnajökul

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti í kvöld franskt göngufólk sem lent hafði í hrakningum nærri Gæsavötnum við norðvesturjaðar Vatnajökuls. Fólkið var hrakið og blautt en óslasað. Þyrlan sótti fólkið að beiðni lögreglunnar á Norðurlandi eystra, sem barst tilkynning síðdegis frá franskri neyðarþjónustu um að neyðarsendir sem þar var vaktaður hefði farið í gang á hálendinu norðan Vatnajökuls.

Í færslu lögreglunnar á Facebook segir að við nánari skoðun hafi komið í ljós að sendirinn væri nærri fjallaskálanum í Gæsavötnum. Gerði lögregla ítrakaðar en árangurslausar tilraunir til að ná sambandi við handhafa neyðarsendisins, sem rannsókn sýndi vera franskt par sem lagði upp á hálendið frá Mývatnssveit fyrr í vikunni.

Þar sem illfært er um þetta svæði á þessum árstíma sökum bleytu og aurs var óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar, segir í færslu lögreglu, auk þess sem aðgerðastjórn var virkjuð á Húsavík og björgunarsveitir ræstar út frá Mývatnssveit, Reykjadal og Aðaldal til að freista þess fara landleiðina ef þess gerðist þörf.

Fólkið blautt og hrakið en heilt á húfi

Þyrla Landhelgisgæslunnar kom í Gæsavötn laust fyrir klukkan 20 í kvöld og fann þar fólkið, blautt og hrakið en óslasað og þyrlunni fegið. Var ferðalöngunum síðan flogið sem leið lá til Reykjavíkur. Lögregla segir ljóst að veðrátta síðustu daga hafi reynt mjög á göngufólkið en hitastig hefur verið um og undir frostmarki á þessum slóðum, með norðangjólu, rigningu, slyddu og jafnvel snjókomu

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV