Rússar nærri því að umkringja Lysjansk

24.06.2022 - 06:16
A puddle of blood is seen amid debris of a building after a Russian air raid in Lysychansk, Luhansk region, Ukraine, Thursday, June 16, 2022. (AP Photo/Efrem Lukatsky)
Blóðpollur í húsarústum eftir loftárás Rússa á borgina Lysjansk Mynd: AP
Sprengjum hefur rignt yfir úkraínsku borgina Lysjansk, síðasta vígi Úkraínumanna í Luhanskhéraði í austanverðri Úkraínu, í nótt og morgun, auk þess sem rússneskir hermenn sóttu að borginni sunnanverðri á jörðu niðri. Í færslu á samfélagsmiðlinum Telegram segir Sergei Haidai, héraðsstjóri í Luhansk, að Úkraínuher hafi tekist að verjast þeirri árás.

„Árásinni á Lysjansk var hrundið ... lík tveggja fallinna hermanna fundust,“ skrifa Haidai. Hann segir fjölda húsa í borginni og þorpinu Borivske þar skammt frá hafa eyðilagst í loftárásum Rússa í nótt og tekur fram að líka hafi tekist að stöðva sókn Rússa að Borivske. Hins vegar hafi innrásarherinn náð valdi á þorpinu Mykolaivka við mikilvægasta þjóðveginn að Lysjansk.

Ægihörð og blóðug sókn Rússa

Sókn Rússa að Lysjansk og nágrannaborginni Sjevjerodonetsk, austan Donets-árinnar, hefur verið ógnarþung vikum saman og mannfall mikið í báðum herjum.

Oleksiy Gromov, háttsettur embættismaður í úkraínska varnarmálaráðuneytinu, greindi frá því á fréttafundi í gær að Rússar ynnu að því að umkringja Lysjansk og hersveitirnar sem enn verja borgina falli.

Haidai sagði á sama fundi að Rússum hefði orðið talsvert ágengt við það ætlunarverk sitt og beindi því til yfistjórnar hersins að fyrirskipa úkraínsku hersveitunum að hörfa frá borginni til að forðast að lenda í þeirri afleitu stöðu.