Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hæstiréttur fellir réttinn til þungunarrofs úr gildi

24.06.2022 - 14:35
A celebration outside the Supreme Court, Friday, June 24, 2022, in Washington. The Supreme Court has ended constitutional protections for abortion that had been in place nearly 50 years — a decision by its conservative majority to overturn the court's landmark abortion cases. (AP Photo/Steve Helber)
 Mynd: AP
Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi í dag úr gildi niðurstöðu í dómsmáli frá árinu 1973 sem tryggði rétt landsmanna til þungunarrofs. Samstundis tóku ný lög gildi í þrettán ríkjum landsins sem banna þungunarrof og búist er við að fjöldi ríkja til viðbótar geri slíkt hið sama á næstunni.

Þegar upp er staðið er búist við að þungunarrof verði bannað í helmingi ríkja landsins og að þannig missi tugir milljóna réttinn til þungunarrofs.

Dómur Hæstaréttar í máli Roe gegn Wade árið 1973 markaði tímamót því þá var í fyrsta skipti tryggður réttur kvenna til þungunarrofs. Dómurinn gilti alls staðar í Bandaríkjunum og setti því skorður hvaða takmarkanir stjórnvöld í einstökum ríkjum Bandaríkjanna gætu sett á rétt kvenna til þungunarrofs. Síðustu ár hefur verið sótt mjög að þessum rétti og fjölmörg ríki sett lög sem ýmist bannað eða þrengja mjög að réttinum til þungunarrofs. 

Úrskurður dómstólsins í dag er kveðinn upp í máli sem snerist um bann Mississippi-ríkis við þungunarrofi eftir fimmtándu viku meðgöngu. Úrskurðurinn var birtur í dag. Sex dómarar af níu samþykktu að snúa við niðurstöðu í máli Roe gegn Wade frá því fyrir hálfri öld, sem tryggði rétt landsmanna til þungunarrofs. Hinir íhaldssamari dómarar við dómstólinn voru allir sammála um að fella Roe gegn Wade úr gildi. Frjálslyndari dómarar lögðust gegn því.

Segja Roe gegn Wade hafa svipt íbúana rétti sínum

Dómararnir sem greiddu atkvæði með því að fella Roe gegn Wade úr gildi sögðu að sá dómur væri rangur. Rétturinn til þungunarrofs væri ekki tryggður í stjórnarskrá. Þvert á móti hefðu íbúar og kjörnir fulltrúar þeirra í einstökum ríkjum rétt til að ákveða hvort og hvernig mætti rjúfa þungun eða banna þungunarrof. Dómararnir sex sögðu að með Roe gegn Wade hefðu íbúarnir og kjörnir fulltrúar þeirra verið sviptir þessum rétti. 

Þungunarrof nær útilokað í sumum ríkjum

Mjög erfitt eða ómögulegt verður að rjúfa þungum í ýmsum ríkjum þar sem Repúblikanar eru við völd. Yfirvöld í Oklahoma banna þungunarrof við nær allar aðstæður eftir getnað. Aðeins er undanþágu að finna ef líf móðurinnar er í hættu eða getnaður átt sér stað við nauðgun eða sifjaspell.

Í fyrra vakti mikla athygli þegar ríkisþingið í Texas bannaði þungunarrof eftir sjöttu viku. Þá var farin sú leið að láta það ekki í hendur embættismanna að framfylgja banninu heldur einstaklingum. Þeim var gert kleift að fara í mál við þá sem framkvæmdu þungunarrof eða aðstoðuðu með einhverjum hætti við það.

Fréttin hefur verið uppfærð.