Yfirmaður skólalögreglu í Uvalde látinn fara

Flowers are piled around crosses with the names of the victims killed in last week's school shooting as people visit a memorial at Robb Elementary School to pay their respects, Tuesday, May 31, 2022, in Uvalde, Texas. (AP Photo/Jae C. Hong)
 Mynd: AP - RÚV
Yfirmaður skólalögreglu í Uvalde-skólaumdæmi í Texas, sem bar ábyrgð á löggæslu og viðbrögðum lögreglu við mannskæðri árás á grunnskóla í bænum í maí, hefur verið leystur frá störfum. Yfirstjórn lögreglunnar greindi frá þessu í gær, miðvikudag, daginn eftir að yfirmaður almannavarna í Texas sagði viðbrögð lögreglu hafa verið kolröng og sakaði yfirmann lögregluliðsins, Pete Arrendo, um að hafa metið líf lögreglumannanna meira en barnanna sem þeir áttu að vernda.

19 börn, 10 ára og yngri, og tveir kennarar voru myrt í árásinni. Fram hefur komið að nógu margir vopnaðir og vel búnir lögreglumenn til að stöðva morðingjann voru komnir á vettvang þremur mínútum eftir að hann réðist inn í skólann.

Þeir réðust þó ekki til atlögu heldur biðu í klukkustund og korter þaður en þeir létu til skarar skríða, meðal annars til að leita að lykli að dyrum sem reyndust ólæstar, á meðan börn og kennarar lágu í andarslitrunum inni í kennslustofum. 

Í tilkynningu lögregluyfirvalda segir að upphaflega hafi ekki staðið til að segja neinum upp störfum fyrr en rannsókn á atburðarásinni í skólanum lyki. Í ljósi þess hve margt væri enn á huldu og erfitt að sjá fyrir, hvenær rannsókninni lyki, þá hafi verið ákveðið að láta Arrendo taka pokann sinn nú þegar.