Varðskipin til Njarðvíkur

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Stefnt er að því að Landhelgisgæslan flytji hafnaraðstöðu sína fyrir varðskipin til Njarðvíkur eftir þrjú ár. Enn á eftir að ganga frá samkomulagi milli ríkisins og Reykjanesbæjar en dómsmálaráðherra og bæjarstjórinn í Reykjanesbæ eru vongóðir um að samkomulag takist. Kostnaðurinn við framkvæmdirnar er um 2 milljarðar króna.

 

Undanfarin ár hefur þrengt að varðskipum Landhelgisgæslunnar í Reykjavík vegna aukinnar umferðar skemmtiferðaskipa. Í byrjun árs leitaði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra til Reykjanesbæjar en þar voru áform að reisa skjólgarð sem myndi gera höfnina í Njarðvík enn betri. „Þá kom upp sú hugmynd hvort hægt væri að gera viðlegukant fyrir Landhelgisgæsluna. Þetta hefur gengið hratt og vel og ráðherra og þingmenn held ég eru sammála að þetta sér verðugt verkefni. Við hlökkum á að takast á við þetta", segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ. 

Byggður verður 200 metra viðlegukantur, dýpka þarf höfnina og byggt verður 400 fermetra fjölnotahús. Verkið er hannað í samvinnu við siglingadeild Vegagerðarinnar og Landhelgisgæsluna. Hver er verðmiðinn á verkinu?  „Heildarkostnaðurinn er um 2 milljarðar króna, helmingurinn er vegna aðstöðu Gæslunnar".  

Hverju breytir þetta fyrir ykkur?  „Þetta mun skapa fjölda tækifæra bæði beinna og óbeinna í kringum Gæsluna og systurgæslur erlendra ríkja sem munu koma hingað líka og nýta sér aðstöðuna geta farið inn í hús. Þarna verður skrifstofa og aðstaða fyrir köfunardeild og fleira. Við vitum að það er þörf á þessu og þetta skapar umferð og atvinnu".

Hvenær ætlið þið að klára þetta? „Tímalínan núna gerir ráð fyrir að öllu verði lokið í árslok 2025. Við höfum gert prufuholur í höfninni og komumst að því að við þurfum ekki að sprengja klappir. Við getum bara mokað þessu upp. Nú erum við að hanna og gera ítarlegri kostnaðaráætlun". 
Aðstaðan hérna verður þá allt önnur og þið getið jafnvel farið að bjóða öðrum fyrirtækjum að koma hingað?

„Já við sjáum það fyrir okkur að ef Skipasmíðastöð Njarðvíkur lætur verða af sínum áformum að byggja þurrkví til að taka á móti stærri skipum þá munu fyrirtæki koma hingað. Það eykur fjölbreytni í störfum hjá okkur". 
Kannski ekki vanþörf á því völlurinn hefur tekið ansi marga til sín?

„Já Flugvöllurinn er okkar besti vinur þegar vel gengur og versti óvinur þegar hann er stop eins og gerðist í Covid. Þá var gríðarlegt atvinnuleysi hér vegna þess hversu þungt hann vegur í þessu", segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
 

 

Arnar Björnsson