Útkallið áskorun sem hefði getað farið illa

23.06.2022 - 19:33
Mynd: Stefán Ingvarsson / RÚV
Samningamaður lögreglu sem ræddi við manninn sem handtekinn var í Hafnarfirði í gær segir að útkallið hafi verið áskorun sem hefði mjög auðveldlega getað farið illa. Útköllum samningahóps lögreglu hefur fjölgað á umliðnum árum. Flest þeirra snúa að andlegum veikindum. Vopnuð útköll sérsveitar vegna notkunar skotvopna voru þrefalt fleiri í fyrra en árið 2016.

Aðalstarf Einars Sigurjónssonar er hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra en vinnudagurinn hans getur breyst ansi skyndilega, því hann er líka í samningahópi ríkislögreglustjóra, sem spilaði stórt hlutverk í umsátrinu í Hafnarfirði í gær.

„Þetta er ofboðslega fjölbreytt. Þú getur verið kominn í þyrlu á leið til Akureyrar tíu mínútum eftir að þú vaknaðir eða sest fyrir framan tölvu og talað við einhvern á Facebook í 10 tíma,“ segir Einar.

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í morgun að karlmaður á sjötugsaldri sem var handtekinn í Hafnarfirði í gær vegna skotárásarinnar skyldi vistaður á viðeigandi stofnun í mánuð. Samningamenn ræddu við manninn í á fimmtu klukkustund í gær um að hann gæfi sig sjálfviljugur fram.

„Verkefnið var áskorun. Það hafði allan efnivið til þess að fara illa. Við vorum mjög ánægð með samstarfið, hvernig allt gekk. Góðar æfingar hjá okkur held ég að hafi skilað góðri lausn á verkefninu. Það var ekkert þarna sem kom okkur á óvart, ekkert sem við höfðum ekki æft áður. Þetta var fjölskylduharmleikur sem spilaðist út þarna - eða veikindi.“

Einar segir að samvinna sé lykillinn að árangri, bæði innan samningateymisins og við aðra lögreglu- og sérsveitarmenn. „Hvernig sem að verkefnið er, við getum verið að tala um heimilisofbeldi, hryðjuverkaógn eða andleg veikindi. Stærsti hluti verkefna eru andleg veikindi.“

Vopnuð útköll sérsveitar þrefaldast

Vopnuðum útköllum sérsveitarinnar vegna fólks sem vopnað er skotvopnum hefur fjölgað ár frá ári. Í fyrra vopnaðist sérsveitin rúmlega þrisvar sinnum oftar en fyrir sex árum, 2016 vopnaðist sérsveitin 27 sinnum yfir árið, 2017 og 18 rúmlega 50 sinnum, 66 sinnum árið 2019, sextíu og tvisvar 2020 en 87 sinnum í fyrra. 

Væri hægt að nýta samningahópinn meira

Einar segir að útköllum samningateymisins hafi líka fjölgað verulega undanfarin ár. Lengi vel voru þau um eitt til tvö á mánuði. „Síðustu tvö ár hafa verið talsvert annasöm. Ég held þau séu alveg örugglega þrisvar fjórum sinnum fleiri ef ég á að giska sjálfur. Ég hef skoðun á því að það væri hægt að nýta okkur miklu meira,“ segir hann.

Til dæmis séu Norðmenn með allt að 20 samningamenn í fullri vinnu. Á Íslandi eru tíu til fimmtán í hlutastarfi í samningahópnum sem var stofnaður fyrir tæpum þrjátíu árum. Þau fóru á námskeið í samningatækni, meðal annars hjá Bandarísku alríkislögreglunni, FBI.

Stundum koma verkefni sem má ekki klúðra

Það getur verið ýmislegt sem flækir störf samningahópsins. Það getur komið fyrir að samningamaður og sá sem er á hinum endanum þekkjast og  yngri kynslóðin er síður hrifin af því að tala í símann og vill oft frekar eiga í skriflegum samskiptum.

„Þetta er líflegt starf, þú veist aldrei hvenær þú færð útköllin eða hvernig útköllin eru, þetta er líka áskorun, því þú getur fengið útköll sem eru erfið og enda ekki alveg eins og þú vilt.“

Hvað er erfiðasta útkall sem þú hefur farið í? „Ég hef farið í útkall þar sem að tíu ára krakki hótar því að hoppa fram af svölum eða húsi. Það sem að þú hugsar þá er: Þetta er ekki verkefni sem þú mátt klúðra. Það er alveg áskorun en það leystist hratt og vel.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV