Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Spyr EFTA-dómstólinn um skilmála í húsnæðislánum

23.06.2022 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Leitað verður ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á lögmæti skilmála lána með breytilegum vöxtum. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í einu þriggja mála sem Neytendasamtökin og fólk á þeirra vegum höfðuðu á hendur Arion banka og Landsbanka.

Neytendasamtökin telja að skilmálar lána með breytilegum vöxtum séu ólöglegir þar sem ákvarðanir bankana um vaxtabreytingar séu matskenndar og ógegnsæjar. Neytendasamtökin hafa stefnt Landsbankanum og Arion banka vegna þessa en í dag úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur í málunum. Dómstóllinn hafnaði öllum spurningum sem Neytendasamtökin vildu leggja fyrir EFTA-dómstólinn. Þess í stað ákvað dómarinn að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins við einni spurningu sem hann mótaði sjálfur.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að dómsmálið varða öll lán sem tekin hafi verið eftir gildistöku laga um fasteignalán árið 2017. Lögin byggðu á Evróputilskipun sem samtökin telja að sé ekki fylgt í lánaskilmálunum.  „Við teljum að ákvarðanir um vaxtabreytingar séu verulega matskenndar og byggi á óskýrum skilmálum og því er mjög erfitt fyrir neytendur að sannreyna hvort að þær séu réttmætar. Við sáum það til dæmis að þegar að Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferli sitt þá tók bankana marga mánuði að fylgja á eftir en núna þegar Seðlabankinn hefur hafið hækkunarferli þá hækka lánin alveg strax.“

Breki segir úrskurðinn vera stórt skref í þá átt að fá kröfur samtakanna viðurkenndar, en á undanförnum árum hafi fallið dómar hjá Evrópudómstólnum sem gefi vísbendingar um að skilmálarnir séu ólöglegir. „Niðurstaðan varð sú að hluta af ósk okkar um að vísa málinu til EFTA-dómstólsins var samþykkt,“ segir Breki.

Málinu hefur nú verið frestað hjá Héraðsdómi þar til niðurstaða liggur fyrir hjá EFTA-dómstólnum, verði niðurstaðan ekki kærð til Landsréttar. Sú málsmeðferð gæti tekið 6-9 mánuði. 

Leiðrétt 24. júní: Upphaflega frétt mátti skilja svo að dómari hefði orðið við kröfum Neytendasamtakanna. Hann hafnaði spurningum sem þau vildu spyrja EFTA-dómstólinn en lagði í stað fram eigin spurningu í einu máli af þremur.

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir