Sólarsjúkur rostungur veldur vandræðum í Noregi

23.06.2022 - 21:57
Erlent · Dýr · Noregur · rostungar · Evrópa
Mynd: NRK / NRK
Rostungurinn Freyja, sem elskar að príla upp á báta og bryggjur til þess að slaka á í sólinni, hefur valdið talsverðum vandræðum í Noregi.

Freyju, þykir greinilega gott að sóla sig. Til hennar sást í Svíþjóð í mars og þar áður hafði hún verið í Danmörku. Nú er hún komin til Noregs hefur gert sig heimakomna við smábátabryggju í Kragerø við Óslóarfjörð. Freyja prílar upp á bryggjur og báta og liggur þar í mestu makindum - en hún vegur ein 700 kíló og bröltið í henni hefur eyðilagt nokkra litla báta. 

Sveitarfélagið hefur verið í mestu vandræðum með Freyju. Nú hefur verið ákveðið að grípa til aðgerða í samráði við stjórnvöld. „Sjávarútvegsráðuneytið hefur nú gert áætlun um hvernig skuli lokka rostunginn Freyju til að nota ekki bátana sem rúm. Við komum með flotbryggju sem verður komið fyrir nálægt staðnum þar sem hún hefur lagt sig upp á síðkastið.  Við vonum að hún verði ánægð með flotbryggjuna sem hvílustað,“ segir Grunde Wegard Knudses, borgarstjóri Kragerø-sýslu í viðtali við NRK.