
Snörp lækkun olíuverðs á heimsmarkaði
Í síðustu viku fór verð á bensínlítranum hér heima í fyrsta skipti yfir 350 krónur. Til samanburðar kom til óeirða í mótmælum bílstjóra árið 2008 þegar bensínlítrinn var að skríða yfir 150 krónur sem á verðlagi dagsins í dag er um 250 krónur.
Verð á Brent hráolíu náði hámarki þetta sumarið þann 8. júní þegar tunnan fór upp í 123 dollara. Viku síðar fór lítrinn hér heima upp fyrir 350 krónur þar sem hann er dýrastur.
Verð á heimsmarkaði hefur fallið hressilega undanfarna daga og stendur tunnan nú í 110 dollurum. Ástæða bensínlækkunarinnar er sögð ótti við að vaxtahækkun bandaríska seðlabankans valdi samdrætti í hagkerfinu.
Verð á dælunni hér heima hefur ekki þokast niður á við en það ætti einungis að vera tímaspursmál ef lækkanir á heimsmarkaði lúta sömu lögmálum og hækkanir. Ódýrasta dropann er sem fyrr að finna á bensínstöðvum umhverfis Costco í Garðabæ og á Akureyri, í kringum 320 krónur líterinn.