
Skotmaðurinn vistaður á stofnun
Þegar grunaðir afbrotamenn eru úrskurðaðir til vistunar á viðeigandi stofnun er það með vísan til andlegra eða sálrænna þátta sem gerir að verkum að það úrræði eigi betur við en gæsluvarðhald. Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness kveður á um að maðurinn verði í fjórar vikur á stofnun.
Maðurinn hefur ekki verið yfirheyrður.
Skotmaðurinn, sem er á sjötugsaldri, skaut á tvo bíla á bílastæði milli fjölbýlishúss og leikskóla við Miðvang á áttunda tímanum í gær. Maður og ungur sonur hans voru í öðrum bílnum. Lögregla sat um íbúð mannsins og ræddi samningamaður lögreglu við hann í gegnum síma. Maðurinn gaf sig svo fram um 20 mínútur yfir tólf í gær og var þá handtekinn.
Mikill viðbúnaður var vegna skotárásarinnar. Á þriðja tug lögreglumanna var á vettvangi. Fólki í fjölbýlishúsinu og starfsfólki og börnum i leikskólanum var skipað að halda sig innandyra uns málið leystist.
Fréttin var uppfærð 10:44.