Nýtt covid-lyf vonandi aðgengilegt hérlendis í haust

23.06.2022 - 17:43
Magnús Gottfreðsson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Paxlovid, nýtt covid-lyf getur fækkað innlögnum á spítala um 85 prósent. Bandaríkjamenn eru byrjaðir að nota lyfið í talsvert miklum mæli en bundnar eru vonir við að lyfið komi hingað til lands í haust. Magnús Gottfreðsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala segir að lyfið muni skipta sköpum fyrir spítalann og í baráttunni gegn kórónuveirunni.

Paxlovid er gefið við upphaf covid-veikinda en rannsóknir hafa sýnt að hægt er að draga verulega úr líkum á sjúkrahúsinnlögn eða dauða. Magnús segir að það sé til mikils að vinna ef hægt er að grípa í taumana snemma og afstýra að fólk leggist inn á spítala í miklum mæli. 

„Rannsóknir á lyfinu hafa gengið út á það að greina fólk snemma og ef það er komið með einkenni. Við vitum af fyrri reynslu að sjúkdómar, hvort sem það eru ónæmisbælandi sjúkdómar, hjarta-, lungnasjúkdómar eða hreinlega aldur gerir það að verkum að fólk á eftir að lenda í vandræðum. Ef við grípum inn í það ferli með snemmtækri ívilnun, lyfjagjöf, þá er hægt að draga úr sjúkrahúsinnlögnum um 85-90 prósent. “

Þetta sýna niðurstöður fyrstu rannsókna en það á eftir að koma í ljós hvort ávinningur helst í öllum hópum og hvernig lyfið virkar á ný afbrigði veirunnar. „Það er allt sem bendir til þess að þessi nýju afbrigði séu jafn vel næm fyrir meðferðinni. Það er að segja veiran er næm fyrir þessum lyfjum rétt eins og eldri stofnar voru.“

Magnúsi er ekki kunnugt um að lyfið sé komið í notkun á Norðurlöndunum. Á blaðamannafundi sem haldinn var um kórónuveirufaraldurinn í Danmörku í gær kom fram að lyfið yrði líklegast aðgengilegt þar í lok sumars.  „Menn gera ráð fyrir því að það verði aðgengilegt síðsumars eða í byrjun haustsins. Ég geri ráð fyrir að við verðum í samfloti með kollegum okkar á Norðurlöndunum hvað það varðar.“

Fáum lyfið líklegast í gegnum hlutdeild Norðurlanda

Íslensk heilbrigðisyfirvöld gera ráð fyrir að verja á annað hundrað milljónum í kaup á Paxlovid. Í skriflegu svari frá Heilbrigðisráðuneytinu kemur fram að unnið sé að því að koma lyfinu hingað til lands. Ísland geti fengið lyfið í gegnum The Health Emergency Preparedness and Response, HERA, en það sé áskilið af hálfu Pfizer, sem framleiðir lyfið,  að keypt verði að lágmarki 5.000 meðferðir sem er langt umfram þörf Íslands. HERA hefur því ráðlagt Íslandi að leita til nágrannalands og fá hlutdeild í innkaupum þess og er nú unnið að því.