Mikilvægt og táknrænt skref fyrir Úkraínu og Moldóvu

23.06.2022 - 20:31
Mynd: Bragi Þór Valgeirsson / RÚV
Sérfræðingur í Evrópumálum segir afar mikilvægt og táknrænt skref að fá stöðu umsóknarríkis ESB, líkt og Úkraína og Moldóva fengu fyrr í kvöld. Samningaferlið eigi þó eftir að taka mörg ár.

Staða umsóknarríkis (e. candidate status) og evrópskt perspektív (e. european perspective) eru hugtök sem ESB sérfræðingar þekkja eflaust vel. Fyrr í kvöld samþykktu leiðtogar allra 27 aðildarríkja ESB að veita Úkraínu og Moldóvu stöðu umsóknarríkja og Georgíu evrópskt perspektív. En hvað þýðir þetta?  Maximilian Conrad, sérfræðingur í Evrópumálum og prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að evrópskt perspektív sé táknræn leið fyrir ESB að gefa í skyn að sambandið sé opið fyrir samningaviðræðum. „Þetta er táknræn leið ESB til að segja: Við viljum fá ykkur í sambandið en þið eruð ekki nógu langt komin, það þarf að uppfylla ýmis önnur atriði sem hafa verið tilgreind svo þið getið orðið fullgilt umsóknarríki,“ segir Conrad. 

Samningaferlið tekur mörg ár

Það er svo annað skref, að fá formlega stöðu umsóknarríkis. Conrad segir það afar mikilvægt og í raun fyrsta skrefið í átt að aðild. En þegar ríki hefur fengið þá stöðu, tekur við langt og strangt ferli. „Það sem framkvæmdastjórn ESB gerir þá í samningaferlinu er bæði að semja um aðildarskilyrði og setja af stað síunarferli. Þar er farið gegnum alla löggjöfina og ástandið í löndunum og metið hverju þarf að breyta, hvað ríkið þarf að gera til að verða reiðubúið fyrir aðild,“ segir Conrad. 

Það þýðir að framkvæmdastjórnin metur hvort stjórnkerfið sé lýðræðislegt, réttarríkið virki sem skyldi, svo fátt eitt sé nefnt. „Og svo er auðvitað spurningin hvort viðkomandi ríki getur tekið upp alla ESB-löggjöfina. Það er mikill lagabálkur eins og Ísland veit vegna EES-aðildar sinnar.“ Conrad segir ljóst að þetta ferli taki nokkur ár. 

Önnur ríki sem hafa sótt um aðild skúffuð

Úkraína og Moldóva sóttu um aðild að ESB fyrr á þessu ári.  Á föstudag lagði framkvæmdastjórn ESB til að Úkraína og Moldóva fái stöðu umsóknarríkis, aldrei áður hefur framkvæmdastjórnin tekið ákvörðun svo fljótt eftir umsókn. Það hefur farið fyrir brjóstið á leiðtogum ríkja á vestanverðum Balkanskaga sem sum hafa verið með sínar umsóknir í ferli í meira en áratug. „Þetta er greinilega vegna stríðsins. Upp að einhverju marki má kalla þetta táknræna athöfn. Svona segir Evrópusambandið að það vilji fá þessi lönd inn í Evrópufjölskylduna og ganga í sambandið. Undir venjulegum kringumstæðum, hefði stríðið ekki brotist út, hefði þetta tekið mun lengri tíma,“ segir Conrad.