Dagný Brynjarsdóttir telur möguleika Íslands mikla

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Dagný Brynjarsdóttir telur möguleika Íslands mikla

23.06.2022 - 06:00
Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður West Ham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, hefur verið lykil leikmaður íslenska liðsins um langt árabil. Hún er í 100 leikja klúbbi liðsins en hún hefur spilað í 101 landsleik og skorað í þeim 34 mörk. Hún er á leið á sitt þriðja Evrópumeistaramót í knattspyrnu en hún spilaði alla leiki Íslands á mótinu 2013 og 2017.

 

Dagný segir reynsluna hafa kennt sér yfirvegun

,,Það eru komin svolítin mörg ár síðan síðast eða fimm ár síðan við fórum síðast á stórmót en ég veit það svo sem ekki. Ef ég tala persónulega fyrir sjálfa mig þá ætli maður sé ekki svona yfirvegaðri og maður lærir náttúrulega af reynslunni og kannski hef ég betri stjórnun á spennustiginu”.

Ísland er í riðli með Belgíu, Ítalíu og Frakklandi en Dagný segir það alveg ljóst, af sinni hálfu, að Ísland eigi að geta komist upp úr riðlinum en tvö lið komast áfram.

,,Á blaði myndu flestir örugglega segja að við værum sterkari en Belgía og mjög svipaðar og Ítalía þannig að ætli það sé ekki mjög mikilvægt að við náum sem flestum stigum þar. Frakkar eru taldir vera sterkari en fyrir fimm árum þá spiluðum við þær og töpuðum eitt núll í vítaspyrnu á síðustu mínútunni þannig að já þetta er bara þegar upp er staðið fótboltaleikur og allt getur skeð en við ættum að geta tekið stig af öllum liðunum en ætli það sé ekki svona já helst Belgía og Ítalía sem við ættum að geta unnið”.

Værir Dagný sátt ef liðið kæmist ekki upp úr riðlinum?

,,Nei ég væri ekki sátt, ég vil að við komumst upp úr riðlinum. Ég tel okkur vera nægilega sterkar til að geta gert það”.

Ísland leikur sinn fyrsta leik þann 10.júlí n.k. þegar liðið mætir Belgíu í beinni útsendingu Rúv.