Mæðgurnar Shaye Moss og Ruby Freeman störfuðu á kjörstað í Fulton-sýslu í Georgíu í nóvember 2020. Freeman hafði unnið í kosningum í ríkinu síðan 2012. Þær báru í gærkvöld vitni fyrir þingnefndina sem rannsakar aðdraganda og afleiðingar innrásarinnar í þinghúsið í Washington. Nefndin spilaði hljóðbút þar sem Donald Trump segir Ruby Freeman vera „atvinnukosningasvikara.“ Einnig var spilað myndskeið þar sem Rudy Giuliani, fyrrum lögmaður Trumps, segir mægðurnar hafi látið „greinilega, en leynilega, USB-tengi ganga eins og heróín- eða kókaínglös.“ Shaye Moss segir að á myndskeiðinu, sem Guiliani deildi opinberlega, hafi móðir hennar rétt fram engifermyntu.
Freeman segir að allar götur síðan hafi hún verið hrædd að segja til nafns. „Ég tapaði allri öryggiskennd. Allt vegna þess að hópur fólks, 45. forsetinn og bandamaður hans, Rudy Giuliani, ákváðu að gera okkur Shaye dóttur mína að blórabögglum til að halda fram lygum sínum um stuldinn á forsetakosningunum,“ segir Freeman.
Mægðurnar hafa fengið ógrynni af hótunum. Þar á meðal morðhótanir sem flestar hafa rasískan undirtón. „Ég fer ekki út í búð. Aldrei. Ég hef ekkert farið. Alls ekkert. Ég hef þyngst um hátt í 30 kíló. Ég geri ekkert lengur. Ég vil ekki fara neitt. Ég efast um allt sem ég geri. Þetta hefur meiri háttar áhrif á líf mitt,“ segir Shaye Moss.