Safnaði 1,5 milljón og var tveimur dögum á undan áætlun

22.06.2022 - 22:12
Mynd: Þorsteinn Eyþórsson / Þorsteinn Eyþórsson
Þorsteinn Eyþórsson 68 ára gamall Borgnesingur lauk í dag hjólaferð sinni um Vestfirði tveimur dögum á undan áætlun en hann lagði af stað úr Borgarnesi 12. júní. Þorsteinn hjólaði til styrktar Píeta samtökunum í minningu tengdasonar síns.

„Ég get nú ekki neitað því að þetta hafi á köflum verið svolítið erfitt en þetta var bara gaman. Sérstaklega þegar maður er búinn, maður gleymir alltaf strax hvað var erfitt. “
 
Þorsteinn hjólaði alls 755 kílómetra á níu dögum en hann tók sér hvíldardag á Ísafirði.

„Ég hjólaði mest núna á sunnudaginn. Frá Ísafirði og alveg inn í Kjálkafjörð það eru 107 kílómetrar. Bæði yfir Gemlufallsheiði og Dynjandisheiði. Það var spáð svo leiðinlegu veðri daginn eftir þess vegna fór ég svona langt.

„Þannig þú hefur gefið í þá?“ Já svarar Þorsteinn. 

Þetta er ekki fyrsta hjólaferð Þorsteins en sumarið 2015 hjólaði hann Snæfellsneshringinn og 2016 hringinn í kringum Ísland. 

Hvert er svo förinni heitið næst?  „Ég er ekki búinn að taka neina ákvörðun um framhaldið. Frúin mín segir líka að ég sé kominn með næga athygli í bili,“ segir Þorsteinn og hlær.

Þorsteinn missti tengdarson sinn í vetur en hann ákvað að hjóla í minningu hans til styrktar Píeta samtökunum. Hann er búinn að safna 1500 þúsund krónum  til styrktar samtakanna.