Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kate Bush hleypur upp á topp vinsældalista

Mynd: Samsett mynd / RÚV

Kate Bush hleypur upp á topp vinsældalista

22.06.2022 - 12:34

Höfundar

Lagið Running up that hill, með söngkonunni Kate Bush, hefur gengið í endurnýjun lífdaga eftir að hafa hljómað í nýjustu þáttaröð sjónvarpsþáttanna vinsælu, Stranger Things. Lagið er á toppi vinsældalista um allan heim, 37 árum eftir að það kom út. Bush sagði í morgun að athyglin sem lagið fær um þessar mundir væri makalaus.

Lagið leikur stórt hlutverk í söguþræði einnar aðalpersónu þáttanna, Max Mayfield, og er nú komið á topp breska vinsældalistans. Þetta er einnig það lag sem hefur tekið lengstan tíma að komast á toppinn í Bretlandi, 37 ár, og Bush er elsta tónlistarkonan sem komið hefur lagi á topp breskra vinsældalista. 

Bush var í viðtali í þættinum Woman's Hour á útvarpsstöðinni BBC Radio 4 í morgun. Hún sagði að velgengni lagsins væri makalaus þótt hún hefði búist við því að það vekti athygli. Hún gerði sér hins vegar enga grein fyrir að það vekti svona mikla athygli. 

Running up that hill er það lag sem nú er mest streymt á Spotify í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar. Það hefur einnig klifrað upp vinsældalista í Ástralíu, Belgíu og Svíþjóð. Þá er það komið í fjórða sæti Billboard-vinsældalistans í Bandaríkjunum og er það í fyrsta sinn sem Bush kemst á topp fimm á þeim lista. 

Lagið er í 23. sæti Vinsældarlista Rásar 2. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Kate Bush aftur móðins vegna vinsælla Netflix-þátta